149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hlutverk stjórnarandstöðuþingmanns felst m.a. í að setja fram uppbyggilega gagnrýni, greina, upplýsa og skýra þjóðfélagsmál og sefa ótta með því að vera ábyrgur þjóðfélagsþegn og vinna gegn því að þingið breytist í vettvang æsifréttamennsku og einstrengingsháttar, vinna gegn því að hér sé málflutningur borinn uppi á herðum rógburðar, þröngsýni og ofstækis. Orkupakkamálið er nefnilega viðvörun til okkar sem unum frelsinu því að það verða önnur mál sem verða hertekin, sannið þið til. Það er áskorun fyrir okkur að leyfa ekki pólitískum öflum eins og Miðflokknum og systurflokkum hans víða núna um allan heim að hanna atburðarás og afbaka markvisst staðreyndir til að koma sjálfum sér út úr krísu og á endanum ná völdum. Það er ekkert annað að mínu mati en pólitísk rányrkja og ef henni er ekki mótmælt mun hún halda áfram. Það er hin raunverulega ógn við lýðræðið og við sjálfstæði landsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)