149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið í undirbúningi á vettvangi Alþingis frá árinu 2010 með ólíkar ríkisstjórnir og ólíka flokka. Þingmenn allra flokka skrifuðu undir nefndarálit á sínum tíma um þetta mál. Ég tel það vel undirbúið, löngu fullreifað og fullrætt á vettvangi Alþingis og vel undirbúið af hálfu stjórnvalda sem hafa sett skýra fyrirvara og hér á eftir verður sömuleiðis afgreiddur skýr ferill um það hvernig ber að meðhöndla tillögu um lagningu sæstrengs ef til hennar kemur.

Ég mun styðja þetta mál en ég nýti tækifærið og heiti á þá þingmenn sem lýst hafa áhyggjum af ýmsum málum í tengslum við afgreiðslu þessa máls að standa þá saman um að tryggja ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá, að tryggja að staðinn verði vörður um opinbert eignarhald mikilvægra orkufyrirtækja, að standa að því að setja skýrari lagaramma um jarða- og landakaup og tryggja að Alþingi búi vel um orku- og auðlindamál eins og við höfum heyrt áhyggjur af hjá almenningi í landinu.

En þau varða einfaldlega ekki þetta mál (Forseti hringir.) og þess vegna styð ég það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)