149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég kem upp á eftir landsins mesta ruglara en ég ætla ekki að fjalla um það hér.

Virðulegur forseti. Við ræðum orkumál sem eru gríðarlega mikilvæg íslenskri þjóð, mikilvægari henni en mörgum öðrum. Við höfum ekki enn fengið alveg á hreint hvers vegna við eigum að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins. Við höfum hins vegar fengið á hreint að fyrirvarar sem settir eru inn í málið eru til heimabrúks. Við vitum að við þurfum ekki að óttast EES-samninginn. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest. Við vitum hins vegar að orkupakki fjögur er fram undan og við vitum sirka hvað er í honum. Við getum kynnt okkur það betur og við getum skoðað heildarmyndina en það kjósa flestir hv. þingmenn greinilega að gera ekki. Þeir kjósa að sjá ekki heildarmyndina og hvað bíður Íslands í því öllu saman.

Virðulegur forseti. Ef það er þjóðremba að verja hagsmuni Íslands er ég þjóðrembingur. Ef það er þjóðremba að standa gegn alþjóðlegum yfirráðum á Íslandi er ég þjóðrembingur. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar ekki vera spyrtur við Viðreisn. (Gripið fram í.)