149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um framtíðarorkustefnu þjóðarinnar. Mikið hefur verið talað um þjóðarviljann og hvort við treystum þjóðinni til að taka ákvarðanir í eigin málum, hvað þá risastórum málum sem varða hana til allrar framtíðar. Hér á eftir kemur fram breytingartillaga frá Flokki fólksins þar sem er tekinn af allur vafi um það að við treystum þjóðinni til að taka ákvarðanir sem varða hana til framtíðar og í stað þess að það komi fram sem kemur fram hér, að það sé Alþingi sem eigi síðasta orðið um það hvort hingað verði einhvern tímann og hvenær og hvar lagður sæstrengur, þá verður það sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vona a.m.k. að allir þeir sem treysta þjóðinni taki vel undir þá breytingartillögu því að hún ætti ekki að verða neinum fjötur um fót.