149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt ef menn ætla í fullri alvöru ekki að greiða atkvæði með þessu máli ef þeir eru á annað borð að tala um að þeir hafi áhyggjur af því að hér verði lagður sæstrengur. Hér er að koma inn það atriði sem margoft hefur verið bent á að okkur þyki mikilvægt að hafa, þ.e. að það þurfi að vera bein aðkoma Alþingis áður en að einhver taki ákvörðun sem þessa. Það er m.a. komið til vegna þess að sporin hræða. Ég þarf ekkert að fara yfir það sérstaklega. Mér finnst það orðið alveg stórkostlegt þegar þeir sem eru hér á móti orkupakkanum sækja sérstaklega rök sín til hörðustu ESB-andstæðinga í málinu. Það er orðið áhugavert.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu held ég að það sé eitthvað sem, (Forseti hringir.) þó að ég sé ekki mjög fylgjandi því svona almennt, megi svo sannarlega skoða. Augljóslega er þó galli á þessari tillögu, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti á.