149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er athyglinnar virði þegar verið er að tala um galla í þessari breytingartillögu. Það er athyglinnar virði þegar við vitum að í fulltrúalýðræði okkar erum við 63 þingmenn og það eru alltaf ríkisstjórnarflokkarnir sem í krafti sínum ráða öllu því sem hér fer fram. Það er staðreynd. Nú erum við að vinna í hópi, þingmenn, með hæstv. forsætisráðherra að breytingartillögum að stjórnarskrá. Við erum að kalla eftir auknu beinu lýðræði. Við erum að reyna að senda þau skilaboð til þjóðarinnar að við treystum henni og við erum að reyna að byggja upp traust, þingið okkar sem býr við mikið vantraust úti í samfélaginu. Hvað væri betra en að stíga fram núna og sýna að við treystum þjóðinni? Ég er mjög hissa ef þeir sem kalla eftir beinu lýðræði og breytingu á stjórnarskrá og öðru slíku eru ekki tilbúnir að taka þátt í því að gefa þjóðinni síðasta orðið ef og þegar til þess kemur að hingað eigi að leggja sæstreng.