149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með þessu máli. Ég skil alveg sjónarmið hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar og þetta er samtal sem á sér stað innan Pírata, nákvæmlega hvar mörkin eru. Ég styð þetta mál. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur talað um að þetta geti ekki verið bindandi o.s.frv. en ég bendi á að þetta er sett inn í almenn atriði varðandi uppbyggingu flutningskerfis raforku. Það var sett þangað með þingsályktun en í frumvarpi sem við erum að fara að greiða atkvæði um nú strax á eftir segir, með leyfi forseta:

„Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

Það er búið að festa þetta í lögum og verður að fara eftir því sem segir í þingsályktunartillögunni sem við erum að greiða atkvæði um núna, að það fari inn í þessa flutninga. Með lögum er búið að binda það inn. Þá er Alþingi búið að segja með lögum að það ætli að binda það inn að það verði að vera þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er líka hægt að fara aðrar leiðir. Til dæmis er hægt að gera þetta með breytingartillögu um að frumvörp eða þingsályktanir taki ekki gildi nema þjóðin hafi fyrst samþykkt þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Jú, það er hægt að vera með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur ef það er rétt orðað í dag.