149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Málið sem við greiðum atkvæði um snýst ekki um lagningu sæstrengs. Það er því svolítið sérstakt að leggja fram breytingartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem við erum ekki að fjalla um eða greiða atkvæði um. Ef Alþingi samþykkir hugsanlega lög um lagningu sæstrengs þá er komin fram forsenda fyrir því að bera upp tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. En ekki nú og ekki hér. Ég greiði því ekki atkvæði með þessari tillögu en hvet þá þingmenn sem styðja tillöguna til að ganga hraðar fram og heils hugar í þeim breytingum á stjórnarskrá sem verið er að vinna að.