149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er búið að samþykkja orkupakkann. Þetta eru einu varnirnar sem sitja eftir, sem við getum gert eitthvað í í dag, á þessum tímapunkti, þ.e. að setja það með þingsályktun inn í orkustefnuna og með frumvarpinu sem við samþykkjum rétt á eftir, lögum sem segja að samþykki Alþingis þurfi til að fara af stað með sæstrengsverkefni. Hvers vegna eigum við ekki að samþykkja það? Ég sé að Miðflokkurinn er á móti því. Þá spyr maður og ég hef alla tíð spurt mig að því í þessu máli: Snýst þetta bara um stjórnmál, um pólitík, eða snýst þetta um raunverulegar varnir fyrir landsmenn? Menn mála sig í lýðræðislitunum en ætla þeir að leyfa þjóðinni að koma að málum með 10% atkvæða? Við skulum fylgjast mjög grannt með því á þessu kjörtímabili. Það er í boði. Er það það sem Miðflokksmenn vilja? Ég er ekkert svo viss, ég stórefast um það. Hér hafa menn tækifæri til að setja upp varnir, að hægt verði að stunda málþóf til að stöðva (Forseti hringir.) að sæstrengsverkefni fari af stað og menn greiða atkvæði gegn því. Miðflokksmenn eru á móti. Þetta snýst um stjórnmál, eins og mann grunaði, miklu frekar en að standa vörð.