150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fyrir tæpum tveimur árum vorum við hér saman komin og ræddum fyrstu stefnuræðu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, þau góðu verk í þágu samfélagsins, náttúrunnar og loftslagsins sem þar voru boðuð. Okkur fylgdu vonir og sem betur fer góðar óskir en líka efasemdir og andstaða eins og búast mátti við. Við töluðum um innviði, samgöngur, menntun, félagslegan stuðning og auðvitað heilbrigðisþjónustuna sem var í brennidepli alla kosningabaráttuna. Loftslagsvána vildum við takast á við af fullri alvöru og vera þar í fararbroddi með metnaðarfullri áætlun og myndarlegri fjármögnun. Við vildum hefja samfélagssáttmálann hátt á loft, þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir. Við vildum endurnýja sáttmálann, sjálfan grundvöllinn að öflugu og góðu samfélagi.

Þetta sögðum við þá og þetta erum við að gera. Við erum stödd í áhugaverðum kafla íslenskrar stjórnmálasögu, kafla þar sem mynduð var ríkisstjórn frá vinstri til hægri um það sameiginlega verkefni að halda utan um samfélagið okkar inn í framtíð þar sem börnin, félagslegt réttlæti og náttúran fá að njóta sín.

Þegar málin eru rædd á lýðræðislegum og félagslegum grunni, þegar við hlustum og færum fram rök, sýnum því skilning að í hverju máli eru uppi mörg og oft andstæð sjónarmið, má búast við farsælli niðurstöðu og sátt sem miðar að betra samfélagi. Við viljum vinna öðruvísi, takast á af heilindum og leita lausna sem duga. Þegar þetta tekst farnast okkur best.  

Öfgar og hræðsluáróður, hálfsannleikur og lygar, hatur og kvenfyrirlitning hefur sett svip sinn á stjórnmál víða um lönd og þeirra illu strauma gætir nú líka á Íslandi. Því þarf að mæta af einurð og þar þurfum við öll að halda vöku okkar. Í þessu felst áskorun fyrir lýðræðislega flokka sem vilja byggja á hugsjónum um manngildi og virðingu, fjölbreytileika og kvenfrelsi. Þar viljum við vera, flest okkar raunar, og að því þarf að vinna.

Ég er stolt af því að eiga sæti í ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns í hreyfingu um félagshyggju, jafnrétti og náttúruvernd, í ríkisstjórn þar sem öflugar konur fara með lykilhlutverk og fjölbreytt sjónarmið njóta stöðu og virðingar. Ég er líka stolt af því að hafa haft áhrif á stórar ákvarðanir hér í þinginu á grunni kvennasamstöðu þvert á flokka, líkt og löggjöf um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Ég vil þakka fyrir samstöðu allra þeirra þingmanna sem setja kvenfrelsi á oddinn, ekki bara stundum eða þegar vel hentar heldur þegar á reynir.

En mitt verkefni er heilbrigðismálin í víðum skilningi. Um þau höfum við þingmenn náð að setja skýra stefnu til ársins 2030 sem enginn flokkur greiddi atkvæði gegn. Á þeim grundvelli ætlum við að þróa heilbrigðisþjónustuna á Íslandi og nýta tíma, fjármagn og starfskrafta í þágu bættrar heilsu og betra lífs. Í stefnunni fjöllum við um forystu, mönnun, rétta þjónustu á réttum stað, áskoranir framtíðar, ábyrg þjónustukaup, gæði og öryggi, þátttöku og virka notendur. Ég hef þegar farið með mínu fólki úr ráðuneytinu í öll heilbrigðisumdæmi landsins, kynnt stefnuna og rætt hana við heilbrigðisstarfsfólk, stjórnendur, sveitarstjórnarfólk og aðra íbúa. Innleiðing er á fullri ferð og stefnunni hefur hvarvetna verið vel tekið.  

Þegar heilsa þjóðar er annars vegar er að mörgu að hyggja og í sumum löndum er mikilvægasta áskorunin sú að bæta aðgang fólks að hreinu vatni. Hér njótum við aftur á móti heilbrigðisþjónustu í fremstu röð en samt þarf að gera betur, fella kerfismúra, ræða saman, tryggja að samfélagið standi undir nafni sem félag sem við eigum saman, þétta net þjónustu og hlýju, heilbrigðisþjónustu sem allir geta treyst.

Foreldrar, sveitarfélögin, leikskólarnir, heilsugæslan — öll vinnum við saman að því að börnunum okkar líði vel. Skólarnir, barnaverndin, frístundastarfið, námsráðgjöfin, afi og amma — öll viljum við leggja okkar af mörkum. Þess vegna er mikilvægast af öllu að vinna saman að settu marki. Forvarnir eru nefnilega ekki átaksverkefni heldur lífið sjálft, alla daga og allan daginn, með samtölum og samveru en líka því að beita ekki heift og lítilsvirðingu í samskiptum hvert við annað.

Góðir landsmenn. Við höfðum kjark til að breyta lögum um þungunarrof, gera heilsugæsluna gjaldfrjálsa fyrir öryrkja og aldraða, taka upp þráðinn í friðlýsingum, hefja byggingu Landspítala, stórauka fé til heilbrigðismála, efla sálfræðiþjónustu, taka á loftslagsmálum, kynna löggjöf í þágu trans og intersex fólks, leita nýrra leiða í samningum — allt þetta og meira til þrátt fyrir flókinn félagsskap. Í þessum málum réð forysta okkar úrslitum en líka samstaða þvert á pólitískar línur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er afl sem þorir að setja mark sitt á samfélagið þegar tækifæri gefast. Það höfum við gert frá stofnun, jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu, með því að setja mál á dagskrá í samfélagsumræðunni, í sveitarfélögum úti um land, í borgarstjórn og hér á Alþingi. Kvenfrelsi, félagslegt réttlæti, friðarstefna og umhverfisáherslur eiga alls staðar erindi, hafa átt erindi og munu hafa um langa framtíð. Þetta er okkar erindi við samtímann og það erindi er brýnt. — Góðar stundir.