150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Stefnuræða forsætisráðherra við upphaf nýs þings sætir jafnan tíðindum og verðskuldar ítarlega umræðu. Giska vel var ræðan flutt en e.t.v. vekur meiri athygli sumt sem ósagt var látið en það sem fram kom.

Þetta á sérstaklega við í utanríkis- og varnarmálum. Vaxandi áhugi bandarískra stjórnvalda á Íslandi og norðurslóðum birtist ljóslega í komu utanríkisráðherra og varaforseta Bandaríkjanna hingað til lands á þessu ári. Þá gætir umtalsverðs áhuga af hálfu ýmissa fleiri áhrifamikilla ríkja. Má í því sambandi geta kínverskra stjórnvalda sem nýlega hafa kynnt samstarfsverkefnið Belti og braut. Fram hefur komið að afstaða ríkisstjórnarinnar til hins kínverska frumkvæðis virðist leika á tveimur tungum. Athygli vekur að forsætisráðherra notaði ekki stefnuræðu sína til að skýra stefnu ríkisstjórnar sinnar til þessa málefnis. Samstarf okkar við Bandaríkin á sér langa og merka sögu. Varnarsamningurinn frá 1951 er einstakur og gegnir þýðingarmiklu hlutverki. Ég tel aukinn áhuga Bandaríkjastjórnar á Íslandi mikilvægan enda er reynslan af samskiptum okkar við stórveldið vestan Atlantsála góð í alla staði. Ákvörðun Alþingis í mars 1949 um stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu er einhver hin mikilvægasta í sögu lýðveldisins og skipaði Íslandi í hóp vestrænna lýðræðisríkja og tryggði varnir landsins á viðsjárverðum tímum.

Herra forseti. Íslenska þjóðin eldist eins og á við um nágrannaþjóðirnar. Fjölgun aldraðra á komandi árum liggur fyrir í lýðfræðilegum gögnum og spám. Miðflokkurinn vill að eldri borgarar hafi tök á að lifa mannsæmandi lífi. Miðflokkurinn leggur áherslu á að fast verði tekið á skerðingum bóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þessar skerðingar eru fallnar til að grafa undan tiltrú á lífeyriskerfinu og skilur aldrað láglaunafólk eftir jafnsett og fólk sem ekkert hefur greitt í lífeyrissjóð á starfsaldri. Miðflokkurinn vill að öldruðum sé gert kleift að búa á heimilum sínum sem lengst og til þess þarf að efla heimaþjónustu við aldraða. Jafnframt þurfa að vera fyrir hendi viðunandi húsnæðisúrræði þegar slíks er ekki lengur kostur þrátt fyrir stuðning heima fyrir. Miðflokkurinn telur brýnt að gangast fyrir átaki til að reisa hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem mæti þeirri þörf sem fyrir hendi er á hverjum tíma. Aldraðir sem skilað hafa ævistarfi sínu eiga skilið að búa við góð kjör og öryggi.

Hæstv. forsætisráðherra vék að þriðja orkupakka Evrópusambandsins í ræðu sinni. Þriðji orkupakkinn er því til sannindamerkis að full ástæða er til að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar og óskorað forræði hennar yfir mikilvægum orkuauðlindum sínum. Þetta lagði Miðflokkurinn sig fram um að gera enda samþykkir flokkurinn hvorki afsal á fullveldi Íslendinga yfir orkuauðlindinni né fyrirsjáanlega hækkun á raforkuverði hér á landi. Öllum má ljóst vera að opinn aðgangur Íslendinga að erlendum mörkuðum fyrir fiskafurðir sínar átti stærstan hlut í að þjóðin braust úr örbirgð til bjargálna og síðar ríkidæmis. Staðið var gegn kröfu um aðgang að fiskveiðiauðlindinni við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en nú stöndum við frammi fyrir kröfu sem snýr að orkuauðlindum. Miðflokkurinn mun áfram standa fast á hagsmunum þjóðarinnar í þessu efni.

Þar með erum við komin að hinni lýðræðislegu umræðu í frjálsu samfélagi eins og hæstv. forsætisráðherra víkur að í ræðu sinni. Ekkert er eðlilegra en að deilt sé um hugmyndir og leiðir að markmiðum. Aðalatriðið er að umræðan sé reist á málefnalegum forsendum. Frjálsar umræður og heilbrigð skoðanaskipti eru grundvöllur framþróunar og framfara. Um þetta fjallar öðrum betur breski heimspekingurinn og hagfræðingurinn John Stuart Mill í öndvegisriti sínu Frelsinu sem fyrst kom út 1859. Annar kafli ritsins fjallar um hugsunarfrelsi og málfrelsi. Mill segir að andlega fjörug þjóð hafi aldrei dafnað við andlega kúgun og muni aldrei gera. Í formála ritsins í útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags kemur fram að Jón forseti hafði lesið Frelsið í danskri þýðingu og þótt mikið til koma. Gleymum ekki því að málfrelsið er hornsteinn allra annarra mannréttinda sem okkur þykir sjálfsagt að fólki séu tryggð.

Herra forseti. Það mega teljast mikil forréttindi að vera Íslendingur. Ungar og upprennandi kynslóðir standa í senn frammi fyrir miklum áskorunum en um leið miklum tækifærum. Framtíðin er undir því komin að rétt og skynsamlega sé haldið á málum í okkar fagra og gjöfula landi. — Góðar stundir.