150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við stefnuræðu forsætisráðherra gefst þingmönnum kostur á að ræða stöðu þjóðmálanna. Það er nauðsynlegt og ekki síður hollt fyrir okkur sem hér sitjum að fá reglulega tækifæri til uppbyggilegrar umræðu sem á að vera málefnaleg og hófstillt, byggð á rökum og staðreyndum, ekki upphrópunum eða stóryrðum.

Pólitískar skylmingar eru sjálfsagður hluti af stjórnmálabaráttunni og oft hefur verið tekist hart á enda nauðsynlegt og eðlilegt en á síðustu árum hefur yfirbragðið hins vegar breyst til hins verra. Stóryrði eru látin falla, brigsl og svigurmæli iðulega notuð til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Þvílík orðræða hér í þingsal er ekki í miklum tengslum við daglegt líf almennings. Henni fylgir að almenningur á æ erfiðara með að koma auga á hin augljósu tengsl sem eiga að vera milli orða og athafna kjörinna fulltrúa annars vegar og hagsmuna heimilanna í landinu hins vegar.

Við ættum að reyna að temja okkur það að bera meiri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og rýna til gagns andstæðar skoðanir í stað þess að væna þá sem eru á öndverðum meiði um annarlegar hvatir. Uppbyggjandi og áhugaverð umræða er til muna frekar til þess fallin að auka traust þjóðarinnar á þessari mikilvægu og merku stofnun sem Alþingi okkar Íslendinga er.

Góðir landsmenn. Einhver ykkar hafa kannski heyrt af því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt í fundarferð í vor þar sem við heimsóttum um 50 bæjarfélög. Á þeim fundum gafst kærkomið tækifæri til að heyra milliliðalaust hvað brennur á fólki. Þetta voru uppbyggilegir og góðir fundir sem drógu vel fram þá bjartsýni og þann framfarahug sem býr með fólkinu í landinu, fólki sem vill nýta þau tækifæri sem blasa við vítt og breitt um allt Ísland.

Á þessum fundum var m.a. rætt um hvað ríkisvaldið ætti að gera og hvað ekki þjóðinni til heilla. Um hlutverk stjórnvalda mátti iðulega heyra að þau ættu helst að einbeita sér að einu meginverkefni, að leggja ekki stein í götu fólks og fyrirtækja í landinu. Og ég deili skoðunum með þeim sem hafa þessa sýn til lífsins og tækifæranna sem það býður því að í fólkinu býr framtíðin. Þar býr krafturinn, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera.

Eitt af stærstu verkefnum stjórnvalda er að stuðla að einföldu og skilvirku regluverki. Í samstarfssáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er kveðið á um átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Í atvinnuvegaráðuneytinu höfum við hæstv. ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sett slíka vinnu í forgang og lagt fyrir ríkisstjórn tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Þar er að finna fjölmörg verkefni en 1. áfangi þeirrar áætlunar sem heyrir undir mig mun koma fram innan nokkurra vikna. Við ætlum að endurskoða leyfisveitingar, einfalda stjórnsýslu og endurmeta hlutverk og nauðsyn nefnda sem heyra undir ráðuneytið. Við tökum til heildarendurskoðunar eftirlitsreglur sem heyra undir ráðuneytið með það að markmiði að einfalda og lágmarka nauðsynlega reglubyrði. Við ætlum að spyrja grundvallarspurninga um hlutverk stjórnvalda. Við munum leggja áherslu á útvistun verkefna og höfnum aldagömlum hugmyndum um að opinberar stofnanir og fyrirtæki séu bundin af því að eiga lögheimili í steinsteypu í Reykjavík. En um leið göngum við úr skugga um að fjármunum íslenskra skattgreiðenda, fyrirtækja og almennra launamanna, kennara, skrifstofufólks, sjómanna, bænda og annarra launþega sé vel varið. Ég er sannfærður um að afrakstur þessarar vinnu verði öflugri og einfaldari stjórnsýsla til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Allir munu njóta góðs af, almenningur og fyrirtæki, ríkissjóður og sveitarfélögin.

Um leið ætlum við að standa við þá meginskyldu stjórnvalda að gæta að samkeppnishæfni þjóðarinnar, tryggja að íslensk fyrirtæki og launafólk verði ekki undir í harðri alþjóðlegri samkeppni. Þannig tryggjum við hagsmuni þjóðarinnar allrar til lengri tíma. — Góðar stundir.