150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Líf okkar allra er háð stöðugum breytingum. Sumum breytingum stýrum við, öðrum ekki. Sumar breytingar óttumst við, öðrum fögnum við einlæglega. Okkur stjórnmálamönnum verður gjarnan tíðrætt um breytingar. Þær eru ekki alltaf til góðs en kyrrstaða knýr aldrei framfarir og stjórnmálaumræðan hverfist um breytingarnar og baráttuna fyrir þeim eða gegn, átökin um nauðsynlegar breytingar á íslensku samfélagi, átökin milli íhaldsemi og frjálslyndis, átökin milli fortíðar og framtíðar.

Stjórnmálaumhverfi hér á landi hefur heldur ekki farið varhluta af þessum breytingum. Stærstan hluta síðustu aldar skiptu fjórir stjórnmálaflokkar með sér 90–100% greiddra atkvæða. Þessir fjórir flokkar skiptu með sér völdum og í mörgum tilvikum gæðum þessa lands. Það sem af er þessari öld hefur fylgi fjórflokksins fallið úr 95% í 56%, ef marka má síðustu skoðanakannanir. Þetta endurspeglar skýrt og hátt ákall kjósenda um breytingar. Sé horft til yngri kjósenda er þetta ákall enn skýrara. Það er ákall sem núverandi ríkisstjórn skellir skollaeyrum við. Þessi ríkisstjórn hefur lýst samstarfi sínu sem sögulegum sáttum ólíkra flokka. Nær væri að kalla það sögulegan ótta við breytingar. Hér er ekki pólitískur stöðugleiki á ferðinni heldur pólitísk stöðnun. Til samstarfsins er stofnað til að standa vörð um fortíðina, ekki varða veginn til framtíðar. Ríkisstjórnin stendur vörð um hátt vaxtastig en lág auðlindagjöld, eitt hæsta matvælaverð og einn óstöðugasta gjaldmiðil í heimi. Svo mætti áfram telja.

Í stuttu máli stendur þessi ríkisstjórn vörð um þrönga sérhagsmuni í stað þess að hugsa um almenning og hagsmuni allra landsmanna.

Við Íslendingar stöndum, líkt og heimsbyggðin öll, frammi fyrir hraðari og meiri breytingum en nokkru sinni fyrr. Hlýnun jarðar, fjórða iðnbyltingin og sú ógn sem lýðræðisríkjum stafar af uppgangi þjóðernispopúlisma og einangrunarhyggju getur haft geigvænleg áhrif á lífsskilyrði okkar og velferð. Við þurfum að sýna framsýni og metnað í þessum efnum ef við ætlum að tryggja komandi kynslóðum sambærileg lífskjör og við sem byggjum þetta land nú höfum fengið að njóta.

Kæru landsmenn. Við stöndum frammi fyrir vali. Valið stendur á milli Íslands tækifæranna og Íslands fortíðar. Þegar við vörðum veginn til langrar framtíðar ættum við að hlusta á ákall ungra kjósenda um breytingar, ákall um aukið frelsi og umburðarlyndi, réttlátara samfélag, stóraukna áherslu á umhverfisvernd, fjölbreyttari tækifæri til menntunar og starfa en ekki síst lífsskilyrði sem standast samanburð við nágrannalönd okkar.

Við munum ekki leysa áskoranir framtíðarinnar með stjórnmálum fortíðar. Við þurfum framsýni og hugrekki til breytinga til að leysa úr læðingi þau stórkostlegu tækifæri sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Frjálslynt, fjölbreytt og réttlátt samfélag þar sem allir fá notið sín og almannahagsmunir ráða för er framtíðarsýn okkar í Viðreisn. Á þeim grundvelli munum við veita þessari ríkisstjórn kyrrstöðu málefnalegt aðhald. Kyrrstaðan knýr nefnilega aldrei framfarir.