150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi heimildina til samnýtingar þrepa segi ég bara aftur að það var gert ráð fyrir því í kostnaðarmati við aðgerðir ríkisstjórnarinnar að það kynni að koma til þess að dregið yrði verulega úr heimildum til samnýtingar þrepa, en það er ekki niðurstaðan. Sömuleiðis var gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun að við myndum innleiða tekjuskattslækkunina í þremur þrepum en við ætlum að gera það í tveimur. Ég sakna þess að hv. þingmaður, sem hefur mikinn áhuga á þessu máli og tekjuskattsmálum yfir höfuð, skuli ekki nýta tímann í þinginu til að fagna þeirri gríðarlega miklu skattalækkun sem við boðum hér og að við skulum flýta henni, að við þurfum ekki að fjármagna hana með því að fara inn í samsköttun, t.d. út af þrepanýtingunni, og slíka þætti.

Varðandi aðra skatta er það þannig með kolefnisgjöldin að það er löngu afgreitt mál. Það var afgreitt fyrir tæpu ári. Það er rétt að þá var ákveðið inn í framtíðina að láta kolefnisgjaldið hækka í skrefum.

Spurt er: Hver er árangurinn? Ég hefði viljað heyra frá hv. þingmanni hvaða mælistiku hann myndi sjálfur leggja á árangur í þessum efnum. Getum við mögulega horft til þess að hvergi í heiminum er verið að innleiða rafbíla jafn hratt og á Íslandi nema í Noregi? Er það kannski vísbending um að við séum á réttri leið? Við gáfum í fyrra eftir 3 milljarða í virðisaukaskattskerfinu út af 3.500 umhverfisvænum bílum sem fluttir voru inn til landsins. Er það árangur? Ég myndi segja að það væri árangur. Við skiluðum til baka álögum sem við ella hefðum tekið af innfluttum bílum upp á marga milljarða til fólks sem valdi umhverfisvænni lausnir. Já, þeir sem voru ekki í umhverfisvænu lausnunum þurftu að borga eitthvað fyrir það.

Breytingin er að eiga sér stað og það mjög hratt og ég held að það sé fagnaðarefni og sé algjörlega ótvíræður árangur af því ívilnunarkerfi sem við erum með annars vegar og svo grænu sköttunum hins vegar.