150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gott og vel, menn vilja sjá hærra fjárfestingarstig ríkisins og ég er sammála þeim sem segja að fjárfestingarstigið hafi verið dregið of mikið saman á eftirhrunsárunum. Það var einfalda leiðin. Það var fyrirséð að menn færu í liði sem væri auðveldara að fást við. Menn kölluðu það á þeim tíma blandaða leið. En það var gengið mjög langt í því að draga úr fjárfestingu hins opinbera. Reyndar var atvinnuvegafjárfestingin á sama tíma á niðurleið. En það er ekki hægt að deila um það að í þessu frumvarpi erum við á réttri leið. Við erum að auka við á hverju ári og við höfum verið að forgangsraða í þágu aukinnar fjárfestingar. Ég er ósammála því sem sagt er, að það séu hin reglubundnu útgjöld til báknsins sem séu að ryðja fjárfestingunni til hliðar.

Ef við skoðum hagræna skiptingu útgjaldanna, sem er ágætlega gerð grein fyrir í fjárlagafrumvarpinu, sjáum við að við höfum verið að setja óvanalega mikið í tilfærslurnar. Í raun og veru eru menn að vekja athygli á því að ef við ætlum að halda áfram þeirri þróun að styrkja svo mjög almannatryggingar eins og við höfum verið að gera með því að bæta lífskjör ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega muni það bitna á getu okkar til að stunda fjárfestingar þannig að við viðhöldum innviðum landsins. Og þetta er alvörupunktur. Þetta er stórmál. Þetta eru ein af tíðindunum í fjárlagafrumvarpinu, að draga það fram hvernig hagræn skipting útgjaldanna hefur verið. Við verðum að fara að veita því athygli hversu gríðarlega háar fjárhæðir fara til almannatryggingakerfisins og í stóru tilfærslukerfin. En ég verð að hafna því að það séu merki um það í fjárlagafrumvarpinu að einhver önnur reglubundin útgjöld séu komin úr böndunum. Skoðið skiptingu útgjaldanna. Til hvaða málaflokka fer vöxturinn? Hann fer til heilbrigðismálanna sem við höfum öll verið sammála um að þyrfti að bæta í. Hann fer til þeirra málaflokka sem ég er að nefna, eins og heilbrigðismála.