150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar horft er sérstaklega til þeirra hópa sem hv. þingmaður tiltekur, lágtekjuhópanna á Íslandi, þurfi að skoða stóru myndina. Ég myndi byrja á því að skoða lífskjarasamninganna, það sem um var samið í þeim. Með því hefur dálítið verið lögð línan fyrir kjarasamninga á opinberum markaði. Þar er sérstaklega lögð áhersla á að lyfta undir með þeim hópum sem hv. þingmaður nefnir. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma síðan því til viðbótar. Þær koma barnafólki til hjálpar með hærri barnabótum og hækkuðum viðmiðunum fyrir skerðingar þannig að t.d. tekjulágar barnafjölskyldur fá mun meiri stuðning, sömuleiðis með hækkun í fæðingarorlofsgreiðslum og lengingu fæðingarorlofsins sem getur skipt þessar sömu fjölskyldur verulega miklu máli. Skattaaðgerðirnar koma þessum hópum sérstaklega til góða vegna þess að sú skattalækkun hefur áhrif um hver einustu mánaðamót. Ég held að í sögunni hafi aldrei verið farið í jafn stóra skattaaðgerð og heldur ekki yfir höfuð í skattaaðgerð sem er svona sérstaklega sniðin að því að lækka skatta umfram allt hjá þeim hópum sem er hér verið að ræða um. Þetta er 21 milljarður sem verður eftir hjá heimilunum.

Það eru nefnd önnur gjöld, en ég verð að halda því til haga að við höfum lagt áherslu á að slík gjöld feli í sér skilaboð um að það séu valkostir. Hér er t.d. nefnt urðunargjaldið, valkosturinn við það er þá að flokka meira. Af því að hér er nefnt kolefnisgjaldið erum við annars staðar að segja: Notið umhverfisvænni bíla, (Forseti hringir.) bíla sem brenna minna af eldsneyti, rafmagnsbíla og aðra slíka. Þar erum við að slá af sköttunum, (Forseti hringir.) gefa afslátt af virðisaukaskatti, aðflutningsgjöldum o.s.frv. Þannig að svarið við spurningunni er: Þetta mun allt skila sér.