150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel það sem hv. þingmaður á við. Auðvitað henta ekki allar aðgerðir ríkisins hverjum og einum landsmanni. Sá sem ekur um á gömlum bíl, illa dekkjuðum eins og hv. þingmaður nefnir, hlýtur líka að horfa til einhverra annarra valkosta í þessari stöðu en rafbílanna. Ég nefni rafbílana bara sem dæmi vegna þess að við erum líka að veita ívilnanir annars staðar. Við veitum t.d. ívilnanir til tengiltvinnbifreiða og við erum með áform um að taka opinber gjöld af rafhjólum og þau eru að verða sífellt ákjósanlegri valkostur eftir því sem göngustígakerfið á höfuðborgarsvæðinu verður þéttriðnara eins og við tökum öll eftir. Þetta eru allt saman þættir sem þarf að horfa til.

Ég held hins vegar að megintilgangnum verði náð með þessari stóru kerfisbreytingu sem við erum að boða sem felst í því að við erum annars vegar að veita mjög miklar ívilnanir til þess að hvetja til breytingarinnar og hins vegar höfum við t.d. í efsta gjaldflokki þá bíla sem menga langmest, 65% vörugjald. Við erum sem sagt að reyna að ýta þeim ökutækjum út af markaðnum smám saman. Það tekur langan tíma. Undirliggjandi spurningin sem hv. þingmaður er með er sú hvort við séum að taka til baka allan ávinninginn af skattalækkuninni eða öðrum kjarabótum og ég svara því mjög afdráttarlaust að svo er ekki.