150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Vissulega er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að óvissusvigrúmið var hækkað og það var mjög nauðsynlegt vegna þeirrar óvissu sem er fram undan í efnahagsmálum. Ég held að það sé rétt, í þeirri vinnu sem fram undan er í fjárlaganefnd, að fleiri hagspár verði skoðaðar, spár greiningardeilda bankanna o.s.frv. Þegar við vorum að skoða þessa hluti í tengslum við fjármálaáætlun kom bersýnilega í ljós að þessar spár voru ekki samhljóða og reyndar var töluverður munur á því hvort það voru greiningardeildir bankanna sem fóru í gegnum efnahagsmálin eða hvort það var Hagstofan. Það er því mjög mikilvægt í fjárlagagerðinni að þessir hlutir séu skoðaðir mjög vandlega. Vegna þess að, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, þá er ekki síður óvissa í alþjóðaviðskiptum sem hefur sannarlega áhrif. Og það má líka nefna, bara af því að hér hafa menn verið að nefna loftslagsmálin, sem eru vissulega mikilvæg, að þau hafa áhrif á sjávarútveginn og hlýnun sjávar hefur áhrif á fiskstofna. Þá væri eðlilegt að nú, í ljósi þess t.d. að loðnubrestur hafði töluverð áhrif og óvissa ríkir um loðnuveiðar á næstu vertíð, yrði aukið við rannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun vegna málefna eins og þessa; alveg eins og verið er að auka útgjöld til loftslagsmála. Ég nefni bara kolefnisgjaldið, það er verið að hækka það núna. Það er verið að hækka það um tæpar 400 millj. kr. milli ára þannig að þar er líka atriði sem við verðum að skoða í tengslum við fjárlagagerðina.