150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Oddný G. Harðardóttir erum sammála um mikilvægi menntunar. Ég ætla bara að ítreka að menntun og menning hefur verið skýrar á dagskrá þessarar hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra en nokkru sinni fyrr. Ég fullyrði það.

Það er rangt að við höfum ekki aukið framlög til skólastiganna, framhaldsskólans og háskólans. Þess sér stað í tölunum. Við tengdum þetta nýsköpun og rannsóknum og erum að horfa á rammasettu útgjöldin á tímabili hæstv. ríkisstjórnar og ef við tökum það saman eru það 17,6% en rammasett önnur útgjöld til þeirra málasviða sem eru í forgangi eru 16%. Framhaldsskólastigið fær í þessu frumvarpi 36 milljarða og hefur aukist um 5 milljarða frá því að hæstv. ríkisstjórn tók við. Tölurnar eru til staðar.

Tíminn er á þrotum. (Forseti hringir.) Ég vildi gjarnan koma inn á margt fleira enda kom hv. þingmaður víða við sögu.