150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Oddný Harðardóttir kom eðlilega víða við í ræðu sinni um fjármálin og ekkert óeðlilegt við það. Hún var gagnrýnin og kom með ýmsar ábendingar um hluti sem hún telur betur mega fara í fjárlagafrumvarpinu og það er bara vel. Hv. þingmaður er í stjórnarandstöðu og á að veita okkur aðhald og ég hlustaði.

Mig langar að nefna nokkur atriði, svo sem að fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður í tíð þessarar ríkisstjórnar, úr 20% upp í 22%, og tekjur af honum hafa verið að hækka. Því þarf að halda til haga. Svo liggur líka alveg ljóst fyrir að það er markmið þessarar ríkisstjórnar að hlutfall til þróunarsamvinnu eigi að vera 0,35% af vergri landsframleiðslu. Ég mun fylgjast vel með því í fjárlaganefnd þar sem ég er nú að taka sæti að við fylgjum þeirri stefnumótun eftir í fjárlagavinnunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í nokkur atriði vegna þess að réttilega var hún gagnrýnin í sinni ræðu. Mig langar að heyra aðeins í hv. þingmanni um þær aðgerðir sem hér eru lagðar til varðandi græna skatta og loftslagsmálin. Ég held að það sé umræða sem við verðum að taka núna og halda áfram með. Hér er að mínu mati verið að stíga gríðarlega (Forseti hringir.) mikilvæg skref en við munum þurfa að halda áfram í þessa átt. Mig langar að heyra sjónarhorn hv. þingmanns á það og hvað hún leggur til í þeim efnum.