150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég býð hv. þingmann velkomna í fjárlaganefnd. Hv. þingmaður nefndi í andsvörum áðan aðhald stjórnarandstöðu og sagðist hlusta. Nú er meiri hluti þingmanna í öllum nefndum stjórnarþingmenn. Ég velti fyrir mér aðhaldshlutverki þeirra því að vissulega eru þeir líka þingmenn með eftirlitshlutverk eins og allir aðrir þingmenn, eins og stjórnarandstöðuþingmenn. Það er enginn munur á stjórnarþingmönnum eða stjórnarandstöðuþingmönnum þar. Ég velti fyrir mér hvað það þýddi að stjórnarþingmaður dásamaði aðhald stjórnarandstöðunnar og segðist hlusta og hvernig það spilaði saman við almennt eftirlits- og aðhaldshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mér fannst það áhugavert og hefði áhuga á að taka smásamtal hvað þetta varðar, sérstaklega um innleiðingu laga um opinber fjármál, eins og ég minntist á í andsvari við fjármálaráðherra.

Við höfum farið yfir ansi mikið í fjárlaganefnd og ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann einmitt um þetta í nefndinni því að það eru mjög mörg verkefni sem eru þar eftir. Það er forgangsröðun verkefna, kostnaðar- og ábatagreining, það vantar skýrsluna um framtíðarþróun lýðstærða og ýmislegt sem spilar inn í allt fjárlagaferlið, alveg til ársskýrslna ráðherra sem eru í raun tiltölulega gagnslausar, ef maður á að skoða ávinning þess að setja fjármuni hingað og þangað, ef greininguna á því hver áhrifin eigi að vera vantar. Aðhaldshlutverkið tengt þessum skorti á innleiðingu og réttri framkvæmd laga um opinber fjármál; hvernig finnst hv. þingmanni staðan vera á því?