150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg það reyndar í vana minn að reyna að hlusta, sama hver það er sem talar, hvort sem hann tilheyrir stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég tel hins vegar að það sé einstaklega mikilvægt að hlusta þegar einhver talar sem er ósammála manni sjálfum eða er enn fremur í því hlutverki að benda á það sem betur mætti fara við störfin hér á Alþingi eða við stjórn ríkisins. Það má því ekki lesa of mikið í það að ég hafi sagt í samtali við hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að ég hafi hlustað á það sem hún var að segja.

Að sjálfsögðu er ég líka í aðhaldshlutverki þegar kemur að stjórnarmeirihlutanum og ríkisstjórnarsamstarfinu en ég hef vitaskuld aðrar leiðir til þess að eiga samtal við til að mynda þá hæstv. ráðherra sem einnig sitja í mínum þingflokki og kem skoðunum mínum þar á framfæri og líka í þessum ræðustól. Ég ítreka að ég tel mjög mikilvægt að hlusta á það sem gagnrýnt er en ég þarf ekki endilega alltaf að vera sammála því þó svo að ég hlusti eftir því og skoði hvernig megi vinna með það.

Svo vil ég bara segja við hv. þingmann að það er gríðarlega margt sem ég mun þurfa að setja mig inn í á næstu dögum og næstu vikum í hv. fjárlaganefnd. (Forseti hringir.) Ég hef eingöngu dottið þar inn á staka fundi og veit að það er margt sem ég þarf að læra þar og það mjög hratt.