150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta töluvert mikil einföldun þó að ég vilji ekki gera lítið úr því að kostnaðar- og ábatagreiningar geta þjónað sínum tilgangi. Með þessari hugmyndafræði finnst mér eiginlega eins og við þurfum að kostnaðar- og ábatagreina alla mögulega valkosti. Við þurfum að kostnaðar- og ábatagreina allt sem mögulega kæmi til greina, allt frá því að gera ekki neitt yfir í að gera alveg rosalega mikið og láta ríkið, sveitarfélög eða einhverja einkaaðila sjá um málin og kostnaðar- og ábatagreina þetta allt saman. Þá getum við valið á milli þess sem við vorum að hugsa um að gera eða bara alveg sleppt því og gert eitthvað allt annað.

Lög um opinber fjármál fjalla bara um það, í tengslum við þá ákvörðun sem maður ætlar að fylgja eftir og leggja til við þingið, að gerð sé tilraun til að sýna fram á að sú ákvörðun geti gengið. Endalaus samanburður við alla valkosti er auðvitað útilokaður.

Ef maður tekur bara sjávarútveginn sem dæmi held ég að jafnvel kostnaðar- og ábatagreining á sjávarútvegsstefnu myndi leiða til orðaskipta í þinginu vegna þess að við sjáum ekkert endilega fyrir okkur (Forseti hringir.) að sama fyrirkomulagið fái jafn marga plúsa og aðrir myndu vilja gefa því. Segjum sem dæmi að ef menn vildu taka allan arð úr sjávarútveginum og deila honum til þjóðarinnar sæi ég mikla galla við það.