150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir mjög gott innlegg í þessa umræðu. Hann var í andsvari við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um það sem snýr að því sem við höfum rætt mikið um í hv. fjárlaganefnd, innleiðingarferlið, um innleiðingu á lögum um opinber fjármál frá því að við samþykktum þau 2015 og tókum upp í ársbyrjun 2016. Mér finnst þetta ekki bara eðlilegar vangaveltur heldur hluti af því að bæta þetta verklag, fjárlagaferlið allt í heild sinni.

Hv. þingmaður nefnir hér grunnsviðsmynd og samanburðartölur og það er mjög margt sem maður horfir til, m.a. þess að það er mjög gagnlegt að hafa tölur til samanburðar. Fjárlagafrumvarpið er mjög viðamikið, enda tekur það til allra málefnasviða, og við þurfum í raun að ákveða hvaða tölur við viljum hafa til samanburðar. Hvernig viljum við hafa formið? Ég er líka sammála hv. þingmanni varðandi grunnsviðsmynd, hún hjálpar alltaf og eiginlega í öllu sem maður gerir þegar kemur að áætlanagerð og stefnumótun.

Svo er það umfangið. Ég held að það sé til bóta, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom inn á í ræðu sinni, að tekinn hefur verið út texti sem liggur fyrir í fjármálaáætlun sem er hluti af ferlinu og liggur til grundvallar frumvarpinu. Á móti kemur að þessi texti er oft mjög vandaður og faglegur og nýtist mjög vel. En ég myndi vilja heyra frekari hugmyndir varðandi kostnaðar- og ábatagreiningu, ég veit að hv. þingmaður var í andsvari við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um það. Mig vantar svolítið að ná betur utan um það hvernig við formum það.