150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það að ef við hefðum sett upp eitthvert skema sem heitir innleiðingaráætlun strax í upphafi þá hefðu menn kannski ekki verið alveg svona bjartsýnir á að þetta gæti tekist, fyrir það fyrsta. Ég held að það hefði getað verið skynsamlegt og það er skynsamlegt að reyna að horfa á stöðuna eins og hún er. Þess vegna nefndi ég áðan mikið samráð sem við vorum að tala um og höfum aðeins reifað og ég held að tími sé kominn á að það verði. Þá getum við skipst á skoðunum án þess að vera að ræða endilega innihald, heldur bara framkvæmd og verklag og annað slíkt. Ég held að eitthvað gæti komið fram í vinnunni af því að við getum leyst þetta betur saman. Við nefndum bæði vefinn og það hefur sýnt sig að þetta er að tikka smám saman inn.

Eins og hefur komið fram er hægt að kostnaðarmeta sumt, annað er öllu erfiðara og menn eru að áætla. En það búa þó auðvitað einhverjar áætlanir þar að baki. Ég get tekið undir það að við eigum að geta fengið ítarlegri grunngögn og upplýsingar um það. Þingmaðurinn nefndi t.d. Landspítalann. Landspítalinn sjálfur hefur svo sem komið með, ég man ekki hvort það var í fyrra eða hittiðfyrra, nokkuð ítarlega greiningu þannig að spítalinn sjálfur á þetta, hann veit á hverju hann byggir. Í sjálfu sér getur umsögn hans beinlínis verið kostnaðarmatið. En svo er það ábatagreiningin, það er með sumt sem maður setur fingurinn upp í loft. Það er ekki beinlínis hægt að ábatameta allt en við getum byrjað, ég tek undir það, við getum byrjað með einhverjum mælingum þar sem við segjum að það sé þetta sem við viljum fá (Forseti hringir.) og heilbrigðisráðherra gerir það töluvert í vinnu sinni. Hún segir: Við erum að kaupa heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) og við viljum hafa hana svona en ekki einhvern veginn öðruvísi og við viljum fá þetta út úr henni en ekki eitthvað annað, (Forseti hringir.) þannig að hún viti hvað hún er að fá fyrir peningana. Það getum við auðvitað kallað ábatagreiningu eða mælingu eða eitthvað slíkt.