150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum innlegg hennar. Ég er afskaplega ánægð með fjárlagafrumvarpið hvað varðar mennta- og menningarmálin og þegar við erum að forgangsraða fjármunum erum við að gera það samkvæmt stjórnarsáttmála. Ég er því afar ánægð og eðli máls samkvæmt eru stóru línurnar oftast undir. Ég ætla hins vegar að nefna aðeins minni hluti sem tilheyra kannski samt stóru línunum af því að ráðherra talaði um afgangsfjármuni í framhaldsskólanum. Mig langar til að spyrja um það, af því að ég heyri harmakvein að austan, t.d. úr Verkmenntaskóla Austurlands þar sem við erum með verknám og starfsnám, eins og hæstv. ráðherra veit. Ég myndi gjarnan vilja að horft yrði til þess þar sem þessir skólar eru svo mikilvægir fyrir þau svæði sem eru hvað lengst í burtu frá öðru vali og skiptir gríðarlegu máli fyrir samfélagið.

Síðan langar mig líka til að velta upp atriðum varðandi Hallormsstaðaskóla, sem áður var hússtjórnarskóli en býður núna upp á nýja námsbraut í sjálfbærni og sköpun og það harmónerar svo vel við það sem við leggjum áherslu á í stjórnarsáttmálanum og það sem ráðherra hefur verið að tala fyrir. Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja að horft yrði til. Skólinn hefur verið að aðlaga sig í gegnum tíðina að ýmsu og m.a. því að færa sig úr hefðbundnu hússtjórnarskólanámi og yfir í eitthvað sem tengist sjálfbærni og sköpun og þarf að fá aukið svigrúm til þess vegna þess að námið fór svolítið seint af stað, eða auglýsingarnar varðandi það, og þar af leiðandi er ekki fullmannað.

Ég spyr ráðherrann hvort það sé eitthvað sem hægt er að taka til skoðunar af því að þessi skóli er rosalega mikilvægur fyrir umrætt svæði þar sem okkur vantar í rauninni aukna fjármuni vegna menntunar.