150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert svar. Valið stóð hreinlega á milli þess að láta persónuafsláttinn standa í stað eða jafnvel hækka hann eins og hefur verið gert eða þá að lækka hann og lækka tekjuskatt á móti. Þá snýst þetta um hvar mesta eftirspurnin eftir skattalækkun hafi verið. Var vandamálið bara að það voru kannski einhverjir í samfélaginu ekki með nægilega háværar kröfur um skattalækkanir? Eða er þetta kannski meira einhvers konar hugmyndafræðileg afstaða, að persónuafsláttur sé á einhvern hátt í grundvallaratriðum slæmur? Mér finnst hann vera rosalega góður. Hann hefur mjög öflug jafnandi áhrif. Ég skil alveg það sjónarmið að hann sé verri en bara flatur skattur. Mér finnst mikilvægt að við höfum það skýrt hvernig þetta eigi að þróast með hliðsjón af því að (Forseti hringir.) mörgum finnst það mjög mikilvægt að persónuafsláttur sé öflugur, og bara hreinlega haldi áfram að vera til.

(Forseti (HHG): Þrátt fyrir áhugaverð skoðanaskipti verður forseti að biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk.)