150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Enn er fjallað um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, tekjuskatt einstaklinga, barnabætur og persónuafslátt. Það er svolítið undarlegt ef við förum að skoða þessa skattheimtu hversu misskipt er í kerfinu vegna þess að þetta bitnar yfirleitt verst á þeim sem síst skyldi. Tökum bara dæmið sem við vorum að ræða áðan í sambandi við barnabætur, að það væru á annan tug milljarða sem færu í barnabætur og að það sé auðvitað töluverð upphæð. En á sama tíma er báknið að þenjast út á ógnarhraða. Bara eitt dæmi um það, sem ég tók fyrr í dag, er hvernig eftirlitsstofnanir hafa tífaldast. Ein eftirlitsstofnunin hefur tífaldast og sumar aðeins minna en þetta hefur skeð á fjárlögum á stuttum tíma. Tökum bara eina nefnd út fyrir sviga, fjölmiðlanefnd, og setjum hana í samhengi. Hún fær 2018 56 milljónir en hún fær 480 milljónir í dag. Þetta er nánast tíföldun. Á sama tíma, frá 2010, hafa eftirlitsstofnanir í heild sinni hækkað um 9 milljarða. Setjum það í samhengi við barnabæturnar. Það segir sig sjálft að þarna er vitlaust gefið, sérstaklega ef við setjum þetta í samhengi við hvernig er krafsað í og reynt að spara á stórfurðulegum sviðum.

Núna á t.d. að fara í sparnað vegna þess að það sé ekki nóg inni á fjárlögum fyrir t.d. sjúkraþjálfun. Og svo það lægsta af öllu lágu, þegar er verið að ráðast á fólk í hjólastólum, lamaða einstaklinga. Sparnaðurinn þar getur kostað þvílíkar fjárhæðir fyrir heilbrigðiskerfið í formi sýkinga, blóðeitrunar, jafnvel nýrnabilunar, sem er mjög alvarlegt fyrir þá sem lenda í þessu og þurfa að reiða sig á hluti sem verið er að spara. Þarna er verið hreinlega að henda þúsundköllunum fyrir nokkra aura.

Það er líka alveg óskiljanlegt að á sama tíma og við erum að búa til nýtt skattþrep og verið er að reyna að sýna fram á það að það eigi raunverulega að lækka skatta á þá sem verst hafa það og eru á lægstu launum og lægstu lífeyrislaunum þá skuli líka þurfa að ráðast á persónuafsláttinn. Eins og ég segi hefði verið mun eðlilega og sjálfsagður hlutur, eins og líka var sjálfsagt í þessu frumvarpi að hækka ekki frítekjumark öryrkja úr 109.500 kr., að lækka ekki persónuafsláttinn um 3.000 kr. Það hefði skilað sér og best til þeirra sem á því þurfa að halda. Ef svona mikil þörf er á því að djöflast í persónuafslættinum hefði verið miklu nær að tekjutengja hann, láta hann bara fjara út með hærri tekjum. Það segir sig sjálft að fyrir mann sem er á 2–3 millj. kr. mánaðarlaunum skiptir persónuafsláttur mjög litlu máli miðað við þá sem eru á strípuðum 247.000 kr. lífeyrislaunum og fá útborgaðar 215.000 kr., sem ekki er hægt að lifa á og varla tóra á. Það er alveg með ólíkindum að fólk sé látið vera á svo lágum útborguðum tekjum.

Síðan er annað í þessu, krónu á móti krónu skerðingarnar sem hafa verið hér til umræðu. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin sé búin að vera að spara sér síðan þetta var afnumið hjá eldri borgurum um 40 milljarða. Bara að færa þetta úr krónu á móti krónu í 65 aura á móti krónu skilar samt sparnaði til ríkis um 8–9 milljarða. Engu af þessu á að skila til þeirra sem mest þurfa á því að halda sem eru lífeyrislaunaþegar og öryrkjar, eða öryrkjar aðallega, þetta varðar auðvitað öryrkja vegna þess að það er búið að fella sérstök uppbótina inn í lífeyrislaun eldri borgara.

Síðan er hitt sem gleymist í þessu öllu saman og það eru auðvitað lífskjarasamningarnir. Þeir virðast vera og eru fyrir alla nema þá sem þurfa mest á þeim að halda. Það virðist algjörlega hafa gleymst og enginn virðist ætla að gera neitt í þeirri kjaragliðnun sem fylgir þeim. Það þyrfti að hækka lífeyrislaun um örugglega nálægt 50–60% til að lífeyrisþegar fengju sömu hækkanir og aðrir hafa fengið. Og það er auðvitað með ólíkindum að það skuli alltaf farið í þá lægst launuðu vegna þess að við vitum að þeir sem eru á lægstum lífeyri og launum borga hlutfallslega mest af sínum sköttum í útsvar til sveitarfélaganna. Mann setur hljóðan þegar maður áttar sig á því að þeir sem eru á fjármagnstekjuskatti og eru ríkastir, langríkastir, borga ekkert til sveitarfélaganna og eru bara með strípaðan 22% skatt. Það segir sig sjálft að ef við setjum það í samhengi við nýja skattþrepið sem er um 35% að þar er rangt gefið. Það er rangt gefið gagnvart þeim sem þyrftu meira á því að halda. Það væri miklu eðlilegra ef við snerum þessu bara við, 35% skatt á fjármagnstekjur, 22% skatt á þá sem eru á lægstu laununum. Þá værum við byrjuð að tala saman á réttum nótum og þá sýndum við virkilega í verki að við værum að hugsa um þá sem ríkinu ber skylda til að sjá til að hafi mannsæmandi framfærslu. Okkar skylda er fyrst og fremst gagnvart þeim einstaklingum sem hafa ekki til hnífs og skeiðar, geta ekki lifað af mánuðinn, eiga ekki fyrir húsaleigu, eiga ekki fyrir mat og hafa áhyggjur af því frá degi til dags hvort þeir geti yfir höfuð átt sjálfir fyrir mat eða þá mat fyrir börnin. Í okkar ríka samfélagi á þetta ekki að vera svona. Við eigum einmitt að nota skattkerfið til að sjá til þess að hlutirnir séu ekki þannig.

Þess vegna er það með ólíkindum að það skuli ekki vera séð til þess að reyna að snúa þessu við. Ef það vantar peninga til að halda kerfinu uppi hlýtur það að segja sig sjálft að við verðum að skattleggja meira þá sem hafa mest handa á milli og færa yfir til hinna vegna þess að allar hækkanir hafa svo miklu meiri áhrif á allar tekjur einstaklinga sem eru á lægstu bótum. Við sjáum bara að á næsta ári eru áætlað að skattbreytingarnar skili til þeirra sem eru á lægstu laununum 3.475 kr. Það er það sem þetta á að skila. Bara með því að hækka ekki frítekjumarkið er búið að taka af þeim einstaklingum sem nýta sér það 2.500 kr., þannig að það verður nú lítið eftir þarna, plús öll önnur gjöld sem er hækka. Millitekjuhópurinn á að fá 2.851 kr. og hinir minna, sem er bara hið besta mál. En ég er hræddur um að þegar upp verður staðið verði þetta mun verra en það lítur út núna vegna þess að við þurfum ekki annað en að líta á það að heimsmarkaðsverð á olíu er að hækka. Hvaða áhrif hefur það? Hversu fljótt mun það éta upp þennan ávinning og þessa skattalækkun?

Ég er mest hræddur um og er alveg með það á hreinu að því miður verða engar skattalækkanir fyrir verst stadda fólkið og þá sem eru á lægstu launum og bótum. Og það á að vera skylda hjá þeim sem koma upp í þennan ræðustól að reikna þetta til enda, sem mér finnst eiginlega alvarlegt að gera ekki, koma með réttar tölur, ekki bara skattalækkanir heldur líka hvað á að hækka á móti og nákvæmlega hversu mikið og hvaða áhrif það hefur. Við getum reiknað þetta út þó að við höfum kannski ekki nákvæmar tölur frá sveitarfélögum en þar munu hækkanir líka skella á þeim sem síst skyldi. Ég held að það sé kominn tími til og okkur ber skylda til að sýna í verki að við séum að hugsa um þá sem reyna af bestu getu að tóra þarna úti á vonlausum tekjum sem duga á engan hátt til mannsæmandi lífs.