150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar, sem eru nokkuð yfirgripsmiklar. Eins og fram kemur í tillögunni er markmiðið að tryggja eignarhald landsmanna, þ.e. þeirra sem búa á landinu eða reka starfsemi á jörðum á Íslandi, og að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og til fjölbreyttrar, sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu. Raunar er verið að hvetja til betri nýtingar á landinu.

Ég átta mig ekki alveg á spurningunni um almennar reglur vegna þess að tillagan gengur út á að setja almennar reglur, búa til og vinna almennar reglur á sama hátt og gert hefur verið í löndunum í kringum okkur. Hér eru sérstaklega nefnd Danmörk og Noregur þar sem lagðar eru meiri hömlur á ráðstöfun fasteigna og aðilaskipti með land. Meginreglan í Danmörku er t.d. að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í Danmörku eða hafa áður búið þar í a.m.k. fimm ár þurfa leyfi dómsmálaráðuneytisins til að geta fengið fasteignaréttindi í Danmörku. Sama gildir um félög, fyrirtæki og stofnanir sem ekki hafa heimilisfesti þar sem og erlend stjórnvöld. Síðan eru til undanþágur sem eru útfærðar. En auðvitað eru þetta allt almennar reglur.

Vandinn er stór. Við höfum oft rætt það í þessum þingsal að það er mikilvægt að þjóðin eigi auðlindir landsins og þetta er einfaldlega hluti af því að þeir sem búa í þessu landi hafi yfir að ráða þeim auðlindum sem hér eru. Það hefur sýnt sig víða um heim að þar sem menn hafa ekki (Forseti hringir.) haft varann á hafa þessi mál farið illa.