150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

árangurstenging kolefnisgjalds.

75. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að benda á þetta því að tillagan gengur út á hvata til þess að lækka gjaldið. Það er nefnilega það merkilega við þetta. Þó að umferðin sem slík og bara almenn bílaumferð sé tiltölulega stór þáttur í útblæstri hvað samgöngur varðar eru það líka stórnotendur sem geta haft einna mest áhrif til að ná markmiðunum hraðar en við erum að gera núna. Ef við náum betri árangri en þau markmið sem við stefnum að samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum segja til um, þá lækkar gjaldið. Það er ákveðin krafa og hvati fyrir okkur, sérstaklega gagnvart stórnotendunum, að gera vel og betur, sem lækkar gjaldið fyrir okkur öll. En að sjálfsögðu þurfum við öll að taka smá ábyrgð á þessu og leggja okkar af mörkum til að lækka gjaldið enn þá meira.

Ég lít því ekki á þetta sem tillögu sem ætti að bitna á neinum heldur hvata til þess að gera betur en við erum að gera núna. Um leið og maður fær tækifæri til að borga minna ef maður gerir betur held ég að maður nýti það.