150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustólinn til að tala um störf þingsins í orðsins fyllstu merkingu. Ég varð vitni að ótrúlegri uppákomu í morgun í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar hefur nýr formaður tekið sæti, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, og vil ég byrja á því að óska henni til hamingju með þá skipan. Hins vegar var það þyngra en tárum tekur að verða vitni að þeirri uppákomu sem átti sér stað í morgun eftir að formaður nefndarinnar hafði sýnt það frumkvæði að kalla eftir dómsmálaráðherra til að ræða alvarlega stöðu lögreglunnar. Ekki var verið að kalla eftir skýrum línum um hvað verið væri að gera heldur verið að líta um öxl og horfa kannski frekar inn á við, á það hver ástæðan sé fyrir þeirri stöðu sem upp er komin í dag. Mér finnst ekki nokkur einasti vafi leika á því að það á heima hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hvað varðar það sem þarna kemur fram, að ákveðnir aðilar voru að kvarta undan því að ekki væri um samráð að ræða við aðra nefndarmenn, aðra stjórnendur í nefndinni, vil ég benda á að ég hef bæði verið varaformaður atvinnuveganefndar og nú annar varaformaður fjárlaganefndar og ég veit ekki betur en að meginreglan sé sú, það gengur bara þannig fyrir sig, að við fáum dagskrána og á meðan við gerum ekki athugasemdir við hana, þegar hún er komin í hendurnar á okkur, lítur maður sennilega á það sem samþykki, a.m.k. gerir hún það, sú kona sem hér stendur. Ég vona innilega að samstarfið í nefndinni, þessari sem öðrum nefndum, eigi eftir að verða okkur farsælt og að við stöndum saman frekar en að standa í svona uppákomum eins og maður þurfti að verða vitni að í morgun.