150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur áðan fór allsherjar- og menntamálanefnd til Akureyrar í gær og heimsótti þar Verkmenntaskólann og háskólann. Það voru mjög gagnlegar heimsóknir og er ljóst að báðir skólarnir nýta sér nýjustu snjalltæki sem völ er á og draga þannig töluvert úr kostnaði og aukið hagræði skapast af því bæði fyrir kennara og nemendur. Við fengum einnig góða fræðslu hjá Jafnréttisstofu og ég held að við ættum að standa vörð um starfsemina sem þar fer fram.

Við hittum einnig lögregluna á Norðurlandi eystra og þar fer vissulega fram mjög mikilvæg vinna við afar erfiðar vinnuaðstæður, leyfi ég mér að segja, húsnæðið er löngu sprungið. Ég vissi að þröngt væri um lögregluna þarna enda húsnæðið yfir 40 ára gamalt en ég vissi ekki að það væri svona slæmt. Þetta er eiginlega dálítið sláandi. Til að mynda er einn sérsveitarmaður staðsettur á Akureyri og vinnurými hans er ofan í kjallara lögreglustöðvarinnar. Vissulega fer liðsauki frá Reykjavík norður þegar á þarf að halda en þær aðstæður koma upp að menn þurfa að bregðast mjög fljótt við og þá er varla tími til að bíða eftir síðdegisflugvélinni. Sýslumaður vakti okkur einnig til umhugsunar og nefndi það dæmi að íbúar Langanesbyggðar þurfa að keyra alla leið til Húsavíkur til að sækja þá þjónustu sem við flokkum gjarnan undir nærþjónustu. Sýslumaður hafði einnig orð á því að hann hefði ekki séð í fjöldamörg ár svona marga þingmenn koma til sín og sýna starfi hans áhuga.