150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, það er svolítið einkennilegt að líta til þess að verið sé að úthluta gæðum og að hér geti sú staða komið upp að einstaklingum verði mismunað. Það er alls ekki tilgangurinn með þingsályktunartillögunni. Hv. þingmaður nefndi áðan að það væri skemmtilegt ef búið væri að gera kostnaðargreiningu eða koma með tölulegar staðreyndir um það hvað þessi tillaga muni hugsanlega kosta. Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því að við vitum ekki um raunverulega þörf og hvernig þessu yrði komið fyrir. Við erum ekki sérfræðingarnir og það kemur mér mjög á óvart þegar hv. þingmaður segir að læknir sé ekki besti aðilinn til að meta þetta, eins og hann sagði áðan. Það þykir mér líka mjög athyglisvert. Ég treysti engum betur til að meta ástand síns sjúklings en lækninum sjálfum, mun betur en einhverjum aðilum úti í bæ. En þetta skrifaði ég orðrétt niður eftir hv. þingmanni. Og jú, hv. þingmaður les þetta hárrétt þar sem verið er að tala um að bersýnilega sé þörf á vistun.

Að lokum langar mig að snúa mér nákvæmlega þangað sem ég var að byrja áðan, áður en tíminn rann út og allt fór að blikka, og það er að vísa til stjórnarskrárinnar, fyrst verið er að tala um hversu erfitt þetta er, þ.e. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þar sem einfaldlega segir:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Það er þessi málsgrein sem fyrst og síðast er ekki fylgt betur en raun ber vitni. Ég segi: Til hamingju við öll þegar öll þessi hjúkrunarrými verða komin til notkunar. Ég veit ekki betur en að hjúkrunarrýmin á Seltjarnarnesi séu ekki nema hálffull núna vegna manneklu. Við skulum þá vera, hv. þingmaður, bjartsýn og brosandi og vonast til þess að gerð verði bót á því öllu saman.