150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eigum við ekki að mismuna fólki og fyrst þingmaðurinn vitnar í stjórnarskrána þá man hann væntanlega líka eftir því að við eigum öll að vera jöfn fyrir lögum. Það eiga að gilda sömu reglur um okkur öll þegar við sækjum þjónustu til opinberra aðila. Það er ekki tryggt með þessari tillögu og ég er að gagnrýna það. Ég sagði ekki að læknir væri ekki best til þess fallinn að meta ástand sjúklings. Ég sagði að meðhöndlandi læknir væri ekki best til þess fallinn að meta hvar í röðinni hans sjúklingur ætti að vera með tilliti til vistunar. Það er málið, (Gripið fram í.) það skiptir verulegu máli.

Við skulum fara aðeins yfir söguna. Vilja þingmenn virkilega fara þangað sem við vorum áður en við tókum upp vistunarmatskerfið sem nú er, þótt ég sé ekki að halda því fram að það sé fullkomið? Vilja menn fara aftur til þess að menn gátu verið að hygla skjólstæðingum sínum, gátu verið að potast í því að koma skjólstæðingum sínum inn á hjúkrunarheimili af því að þeir þekktu einhvern eða út á kunningsskap? Vilja menn fara aftur þangað? Halda menn virkilega, ef við förum út úr því að vera með kerfi sem a.m.k. er hlutlægt, (IngS: Óskilvirkt.) ef við sleppum því að fara þessa leið sem við þó notumst við, að meiri líkur séu á því að við mismunum ekki fólki? Við munum þvert á móti mjög fljótt lenda í stöðu þar sem læknir á Austurlandi metur sjúkling kannski allt öðruvísi en læknir á Suðurlandi, við getum ímyndað okkur það. Við lendum mjög fljótt í þeirri stöðu að vera farin að mismuna fólki. Og það er áreiðanlega ekki vilji flutningsmanna tillögunnar.