150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér örlítið í umræðuna því að ég er einmitt alveg sannfærð um að þessi þingsályktunartillaga er gerð af góðum hug og góðum vilja, eins og kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland áðan. Ég efast ekki um það og ég efast heldur ekki um að í þessum sal sé góður hugur og góður vilji til að bæta þar úr og veita góða þjónustu þeim öldruðu sem á henni þurfa að halda.

Mér fannst orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar áðan um hæfnismatið skynsamleg og ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta mál mjög vel. Ég held að færni- og heilsumatið sem við höfum byggt upp í kringum þetta sé skynsamlegt sem og þegar við opnuðum á að það yrði algjörlega óháð sveitarfélögum og að forgangsraðað yrði eftir þörfinni. Ég held að við ættum ekki að beina reiði eða pirringi að því kerfi því að ég held að það sé einmitt hugsað til að leysa málin að einhverju leyti og forgangsraða þó að við viljum kannski sjá enn betri þjónustu í þessum málaflokki.

Mig langaði aðeins til að blanda mér í umræðuna vegna þess að hv. þm. Inga Sæland kom líka aðeins inn á dvalarheimilin. Ég viðurkenni að ég er svo sem enginn sérfræðingur í þeim, en mér hefur sýnst hluti af vandamálinu vera sá að nú vanti orðið dvalarheimili. Í gamla daga þegar ég var barn og fór að heimsækja langafa hétu flest dvalarheimilin elliheimili en þau eru varla til í dag því að þetta eru meira og minna hjúkrunarheimili. Enginn kemst inn á hjúkrunarheimili nema vera með færnimat og hafa mikla þörf fyrir hjúkrun. Ég hef velt þessu fyrir mér. Ég veit þó að meira er til af þeim á landsbyggðinni. Þetta er líka eitt af því sem hefur gert rekstur þessara heimila flókinn því að dvalarheimilin voru stundum byggð upp af góðum hug alls konar samtaka sem gáfu peninga í þau. Svo tóku sveitarfélögin við þeim og síðan voru þau gerð að hjúkrunarheimilum og nú er reksturinn í algjöru rugli. Ríki og sveitarfélög rífast mikið um hver á að greiða fyrir þjónustuna. Það er kannski ekki síst sá punktur sem mig langaði að koma hérna að og nota tækifærið af því að við erum að ræða stöðuna í þessum málaflokki heilt yfir. Mér finnst orðið tímabært að hæstv. heilbrigðisráðherra taki af allan vafa um að hjúkrunarheimili séu málaflokkur ríkisins og að þar af leiðandi eigi ríkið að sjá um þann rekstur eða bjóða hann út og greiða öðrum fyrir að sjá um reksturinn. Þá er ég sérstaklega að vísa í vandamál sem ég veit að sum okkar í þessum sal þekkja ágætlega og það er þegar sveitarfélögin hafa með einhverjum hætti komið inn í þennan málaflokk.

Ég vil meina að við séum komin á mjög hálan ís með það. Ég held að hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi, sem var nefnt áðan, sé gott dæmi. Þar var byggt upp glæsilegt hjúkrunarheimili. Á einhverjum tímapunkti stóð til að sveitarfélagið ætti að vera milliliður um rekstur á því. Sveitarfélagið áttaði sig á að hagsmunum sveitarfélagsins væri ekki vel borgið með því og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði: Ókei, þá tökum við þetta að okkur og látum ríkisfyrirtæki reka þetta hjúkrunarheimili. Ég vísa með þessu sérstaklega í mál sem ég þekki mjög vel í Mosfellsbæ þar sem mikill ágreiningur er um hver greiði fullan kostnað við rekstur hjúkrunarheimilisins, svo það fari ekki á milli mála, en ég þekki þetta líka víða í kjördæmi mínu. Margir bæjarfulltrúar sem ég hef rætt við í kjördæminu, Suðvesturkjördæmi, hafa einmitt rætt þetta. Mér finnst engin ástæða til að eyða orku og peningum bæjarfulltrúa og bæjarstjóra og svo ráðuneytisins að auki í að rífast um þetta. Það sem skiptir máli er þjónustan við einstaklingana sem búa þarna. Við erum með samfélagssáttmála um að við ætlum að standa undir þeirri þjónustu og þá held ég að mun einfaldara væri að hæstv. heilbrigðisráðherra tæki reksturinn til sín.

Þá er ég búin að koma að því helsta sem ég vildi ræða um þessa ágætu þingsályktunartillögu sem ég er sannfærð um að sé gerð af góðum hug. Ég get að einhverju leyti tekið undir það að við eigum ekki að ráðast gegn þeim kerfum sem virka raunverulega. Þó að við viljum byggja upp meira í þjónustu fyrir þetta fólk held ég að við eigum ekki að eyðileggja þau kerfi sem stýra inn í þá mikilvægu þjónustugátt sem hjúkrunarheimilin eru.