150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svar mitt er: Ég er mjög jákvæð fyrir því. Ég held að það sé mikil ástæða til að skoða það frekar. Þá komum við inn á það sem verið var að ræða áðan í tengslum við þingsályktunartillöguna um færni- og hæfnismatið, að fólk þarf að vera orðið mjög lasburða til að fá þetta mat og þar af leiðandi pláss á hjúkrunarheimili. Ég hygg að þegar fólk er komið á þann stað kunni að vera hagkvæmast að veita þjónustuna á einum stað eins og hjúkrunarheimilin eru. Það er auðvitað oft langur tími frá því að fólk þarf einhvers konar aðstoð þar til það þarf svo mikla aðstoð að það þurfi að búa á stofnun þó að stöðugt sé verið að reyna að gera hana að heimili. Ég er algjörlega sannfærð um það og mig langar að hvetja hv. þingmann áfram í því. Ég veit að hann hefur haft ýmsar hugmyndir uppi um að við útfærum frekar þjónustu okkar við eldra fólk sem þarf á aðstoð að halda.

Þarna kemur líka að vandamálinu sem ég nefndi í ræðu minni, samspili ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin bera ábyrgð á félagslegri þjónustu við eldri borgara en svo eru heilbrigðismálin á herðum ríkisins. Það er uppi fullt af góðum hugmyndum um hvernig hægt sé að veita einstaklingnum bestu þjónustuna en svo erum við í einhverju veseni að rífast um hver eigi að greiða hvað og hvar kostnaðurinn liggi. Það er algjörlega óásættanlegt. Við þurfum að komast yfir þann hjalla og hætta að velta fyrir okkur hvorum megin þetta liggi, hvort það sé greitt með útsvarinu eða hinum launaskattinum okkar.