150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Dvalarheimilin eru kannski ekki lausnin og ég kastaði því svolítið fram en þá held ég að við ættum líka að horfa til þess að dvalarheimili gætu verið meira eins og við hugsum í dag búsetukjarna fyrir fatlað fólk sem er einmitt svolítið eins og hv. þingmaður kom inn á, sjálfstæð búseta en hönnuð sérstaklega með tilliti til þarfa þeirra sem þar búa og það gert auðvelt og hagkvæmt að veita þjónustu. Við þurfum líka að hugsa það þannig. Ég held að það sé hægt að velta upp alls konar svona hugmyndum.

Það að færa málaflokk eldri borgara til sveitarfélaga er klassískt mál. Við hv. þingmaður sem höfum starfað lengi á sveitarstjórnarstiginu þekkjum þá umræðu sem hefur oft sprottið upp. Ég hygg að sveitarfélögin telji sig akkúrat núna það brennd af yfirfærslu málaflokks fatlaðra að þau myndu ekki treysta sér í þá umræðu. En mig langar til að benda á nokkuð sem mér datt í hug þegar hv. þingmaður var að tala, ég heimsótti nýsköpunarfyrirtæki handan götunnar ekki alls fyrir löngu, Trappa held ég að fyrirtækið heiti, sem leysti talmeinaþjónustu. Hún lá einmitt sitt á hvað og var á milli þess að vera heilbrigðismál og málefni sveitarfélaganna innan skólanna. Þetta fyrirtæki er búið að leysa vandann, getur veitt börnunum þjónustuna og rukkað sveitarfélagið þegar það á við og ríkið þegar það á við. Þá má velta fyrir sér hvort það að fá nýsköpun einkaaðila eða samtaka í auknum mæli inn í þennan málaflokk geti hjálpað okkur að leysa þau viðfangsefni sem okkur hefur ekki alveg tekist hingað til að leysa.