150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[14:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn sem varðar aðild Norður-Makedóníu. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda viðbótarsamning sem gerður var við Norður-Atlantshafssamninginn frá árinu 1949 og varðar aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu að samningnum.

Hinn 6. febrúar sl. undirrituðu sendiherrar 29 ríkja Atlantshafsbandalagsins viðbótarsamning við stofnsáttmála bandalagsins, að viðstöddum utanríkisráðherra Norður-Makedóníu. Í 2. gr. viðbótarsamningsins er kveðið á um að hann öðlist því aðeins gildi að allir aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum hafi tilkynnt um staðfestingu sína á honum. Nú þegar hafa 22 bandalagsríki lokið sínu staðfestingarferli og er unnið að því að Norður-Makedónía geti gerst fullgilt bandalagsríki síðar í haust.

Virðulegi forseti. Ísland hefur ávallt verið í hópi þeirra ríkja sem hafa lagt áherslu á að bandalagið sé opið þeim lýðræðisríkjum sem sækjast eftir inngöngu að því tilskildu að þau uppfylli pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg skilyrði sem eru sett umsóknarríkjum vegna inngöngu. Norður-Makedónía hefur í raun uppfyllt skilyrði til aðildar að langmestu leyti um árabil en vegna deilna milli ríkisins og Grikklands um formlegt nafn ríkisins dróst aðild um margra ára skeið. Árið 2018 náðist loksins pólitískt samkomulag og nafnið Norður-Makedónía var fest í sessi með breytingum á stjórnarskrá, löggjöf og atkvæðagreiðslu í báðum ríkjum. Öll skilyrði eru því uppfyllt fyrir aðild að bandalaginu.

Fjölmörg ríki sem áður voru undir stjórn eða á yfirráðasvæðum fyrrum Sovétríkjanna hafa eftir lok kalda stríðsins sóst eftir vestnorrænni samvinnu og leitað eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu og öðrum fjölþjóðlegum stofnunum. Ísland hefur síðustu áratugina staðfest og fullgilt fjölmarga samninga um stækkun bandalagsins. Við stofnun bandalagsins 1949 voru bandalagsríkin 12. Um hálfrar aldar skeið bættust aðeins fjögur ríki við þann hóp. Á næsta áratug eftir það fjölgaði ríkjunum um 12 til viðbótar. Svartfjallaland bættist svo við árið 2017 og Norður-Makedónía verður því 30. bandalagsríkið.

Grundvallaratriði er að hvert og eitt ríki hafi sjálfsákvörðunarrétt og geti tryggt hagsmuni sína á eigin forsendum. Í því felst einnig að ríki verða að hafa rétt til þess að velja sér bandamenn og fjölþjóðasamtök sem þau kjósa að taka þátt í að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Herra forseti. Stækkanir bandalagsins eftir að kalda stríðinu lauk hafa farið fram í þremur lotum. Árið 1994 var opnað á samstarf og aðildarferli nýrra ríkja að bandalaginu með því að ráðast í úttekt á forsendum og markmiðum fjölgunar. Enn fremur voru hafnar viðræður við stjórnvöld í fjölmörgum ríkjum sem lýstu áhuga á að ganga til liðs við bandalagið. Stofnað var til svokallaðs samstarfs í þágu friðar, „Partnership for Peace“ á ensku vísu, með fjölda samstarfsríkja og til að undirbúa ný ríki sem hyggja á aðild að bandalaginu er svokölluð aðgerðaáætlun, með leyfi forseta: „Membership Action Plan“, forsenda slíkrar aðildar. Aðgerðaáætlun er umbótaferli í eðli sínu og sniðin að hverju ríki og miðar að því að aðstoða ríki sem við hyggjum að sæki um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ríkin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, pólitísk og efnahagsleg en líka skilyrði frá öryggisfræðilegu sjónarmiði áður en af aðild getur orðið.

Norður-Makedónía lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 og hefur verið með slíka aðgerðaáætlun frá árinu 1999 og hefur því beðið aðildar um 20 ára skeið. Af hálfu bandalagsins hefur alltaf verið lögð áhersla á að markmið stækkunar sé að auka stöðugleika og öryggi í Evrópu og styrkja um leið þá lýðræðisþróun sem hefur átt sér stað innan viðkomandi umsóknarríkis. Fyrstu þremur Evrópuríkjunum í austri, Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi, var boðin aðild á leiðtogafundi í Madríd árið 1997 og urðu þau formlega aðilar árið 1999. Á leiðtogafundinum í Prag árið 2002 var sjö ríkjum til viðbótar boðin aðild. Þau ríki, Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía, urðu síðan formlega aðilar árið 2004. Næsta stækkun fór fram árið 2009 þegar Albanía og Króatía bættust í hópinn og loks varð Svartfjallaland aðili árið 2017.

Á leiðtogafundi bandalagsins í Brussel í júlí 2018 var ákveðið að bjóða ríkinu til inngöngu í bandalagið í ljósi samkomulags stjórnvalda í Aþenu og Skopje sem þau höfðu náð um nafnamálið. Formlegt heiti ríkisins yrði í framtíðinni Lýðveldið Norður-Makedónía. Aðildarviðræður fóru fram milli ríkisins og bandalagsins frá september 2018 til janúar 2019 og viðbótarsamningurinn var undirritaður 6. febrúar sl. Ríkið mun sjálft greiða kostnað við aðlögun eigin varna að samræmdu varnarkerfi bandalagsins og er ekki gert ráð fyrir að núverandi aðildarríki þurfi að breyta eigin varnaráætlunum, auka útgjöld til varnarmála eða bera á nokkurn hátt viðbótarkostnað af inngöngu Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

Virðulegi forseti. Það er von mín að þetta mál fái sem skjótasta fyrirtöku í utanríkismálanefnd þingsins og að við getum þannig hraðað staðfestingarferlinu af okkar hálfu nú þegar langstærstur hluti bandalagsríkjanna hefur lokið sínu fullgildingarferli. Það liggur fyrir að inntökuskilyrðin hafa verið uppfyllt. Mat mitt er að innganga Norður-Makedónía feli í sér sterk skilaboð og sé mikilvægt skref til að tryggja öryggi í Evrópu og stöðugleika á Balkanskaga. Lausn nafnamálsins milli Grikklands og Norður-Makedóníu er dæmi um friðsamlega lausn á erfiðu og langvarandi deilumáli. Fleiri ríki mættu taka sér slíkt til fyrirmyndar í heimsmálunum og þau skilaboð viljum við gjarnan hafa í farteskinu fyrir Íslands hönd á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í London í desember.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar að þessari umræðu lokinni.