150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

73. mál
[15:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um þingsályktunartillögu um undirritun og fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni flutningsmanni fyrir og er ég einn af stuðningsmönnum málsins. Mér finnst þetta mikilvægt mál. Má eiginlega segja að Flokkur fólksins hafi verið stofnaður út frá fátækt barna. Það er auðvitað alveg ömurlegt að þurfa að segja í ræðustól Alþingis að það séu fátæk börn á Íslandi og ekki bara nokkur heldur 10%. Þess vegna er óskiljanlegt að margflytja þurfi eins sjálfsagt mál og þetta, og ætti það að vera sjálfsagt að samþykkja réttindi barna. Það á bara að ganga sjálfvirkt fyrir sig að samþykkja réttindi barna strax.

Ef ég hugsa aftur í tímann til skólagöngu minnar þá man ég ekki eftir að hafa nokkurn tímann heyrt eða lært um að barn ætti nokkur réttindi. Það segir sig sjálft að við eigum að veita börnum full réttindi, samþykkja öll þeirra réttindi. En númer eitt, tvö og þrjú að upplýsa þau í skólastarfi og láta fylgja með að þau fái allar upplýsingar um rétt sinn og hvernig þau geta nýtt sér hann. Þetta á að vera hluti af menntun þeirra. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Ég tek heils hugar undir þetta og styð tillöguna og vona að hún nái fram að ganga.