150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega.

35. mál
[16:28]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var mér nú kannski ekki beint í huga að spyrja hv. þingmann nánar út í tillöguna. Ég kom einungis hingað upp til að taka undir hana og fagna því að hún sé komin fram. Mér finnst hún mjög góð og hógvær. Þingmaðurinn leggur til að fela félags- og barnamálaráðherra að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum sem ég held að sé ágætisbyrjun. Eins og þingmaðurinn fór yfir í sínu máli bætir það lífsgæði fólks og dregur úr streitu, eykur gleði og hamingju að komast út úr sínu daglega umhverfi í einhvern tíma. Eins og kemur fram í greinargerðinni er um að ræða tekjulægri hópa sem eiga mjög erfitt með, og jafnvel bara er ómögulegt, að leigja orlofshús á frjálsum markaði. Ein vika kostar tugi þúsunda sem er fyrir mjög marga óréttlætanlegt miðað við venjulegan heimilisrekstur. Þannig að ég vil bara óska þingmönnum til hamingju og taka undir tillöguna. Ég vona að hún fái góðan framgang hjá nefndinni og að við getum afgreitt þetta mál og þessi vinna fari af stað.