150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að leggja orð í belg um svokallað velsældarhagkerfi sem er frá mínum bæjardyrum séð nýtt orð yfir nokkuð sem við viljum líkast til öll stefna að, að sem flestum líði vel hvernig sem á það er litið. Ég er samt ekki viss um að ég skilji þessa umræðu til hlítar. Auðvitað eigum við ekki að vera á móti því að horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni. Til að meta hvort við lifum í velsældarhagkerfi eru fjölmargir mælikvarðar hafðir til hliðsjónar sem mæla ýmsa þætti, félagslega, efnahagslega og umhverfislega, í þeim tilgangi að varpa ljósi á hversu mikil velsæld ríkir meðal okkar. Það er ekki nokkur spurning að ef fólk á sæmilega til hnífs og skeiðar líður því betur en ef það þarf að telja hverja krónu til að vera ekki eilíflega hálfhungrað. Einnig má skilja að ef fólk hefur það bærilegt í félagslífinu, nýtur samvista og finnur sig í samfélaginu meðal sinna nánustu og félaganna eykur það vellíðan í samanburði við einangrun í einmanaleika.

Þá má einnig gera sér í hugarlund að þeim manni líður betur sem kemst út í lítt snortna náttúru endrum og sinnum og hann finnur fremur til vellíðunar en sá sem dvelur innan um margháttaðan sóðaskap og jafnvel svo að um heilsuspillandi umhverfi sé að ræða.

Til hæstv. ráðherra er beint þeirri spurningu hvernig hann hyggist hverfa frá núverandi fyrirkomulagi þar sem ofuráhersla er lögð á hagvöxt og framleiðsluaukningu en áherslan verði fremur lögð á að auka lífsgæði og almenna velsæld. Hér er um grundvallarspurningu að ræða, herra forseti: Hvernig er unnt að auka velsæld og lífsgæði án þeirra lykilþátta sem nefndir voru? Er það yfirleitt unnt? Endanlegt og greinargott svar við þessu væri mikils virði. Sumir myndu segja að það væri ekki bæði unnt að eiga kökuna og borða hana.