150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að opna á þessa umræðu um velsældarhagkerfið. Það var mjög ánægjulegt að verða vitni að ráðstefnu uppi í Háskóla Íslands um þetta mál og þakka ég ríkisstjórninni fyrir þessa vinnu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa einhverjar mælingar á því hvernig við stöndum okkur. Það er mjög jákvætt fyrir okkur að fá líka stöðuna á þeim þáttum sem nú eru teknir inn sem ekki lúta beint að beinhörðum peningum heldur fjöldamörgum öðrum þáttum. Við stöndum okkur ágætlega heilt yfir og meðaltal okkar er býsna gott. Við borðum samt ekki prósentur eins og við höfum svo oft talað um hér og við lifum ekki á meðaltalinu, heldur þurfum við að grípa þá sem þurfa raunverulega á því að halda. Það er verkefni okkar hér og þess vegna verðum við að passa okkur líka í þessari umræðu að festast ekki í meðaltalinu heldur skoða einmitt hvar það er sem fólk, einstaklingar, konur, karlar og börn, fellur á milli. Við verðum að fara að einbeita okkur að þeim í umræðunni, reyna aðeins að lyfta umræðunni yfir meðaltal og hagtölur og fara að horfa á einstaklingana sem eru á bak við hagtölurnar, einstaklingana sem eiga ekki til hnífs og skeiðar, einstaklingana sem ekki búa við jöfn tækifæri, börn sem búa við sárafátækt og ekki við húsnæðisöryggi, svo að dæmi sé tekið.

Við höfum fjallað um þetta margoft í þessum sal en ég held samt sem áður að við megum ekki festa okkur í hagtölum heldur verðum að horfa á fólkið sjálft.