150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:50]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka mikilvæga umræðu. Efni þessarar skýrslu, Mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði, er gleðiefni. Það er með ólíkindum hversu lengi samfélagið hefur tosast áfram, látið mikinn yfir velsæld og stuðst mest bara við hráa, einfalda þætti eins og hina efnahagslegu, vergu landsframleiðslu eða stærð hagkerfisins, og uppi hefur verið stöðug krafa um vöxt, hagvöxt, meiri og meiri hagvöxt eins og enginn sé morgundagurinn. Það þarf miklu meira til í eftirsókn og leit að raunverulegri velferð.

Lengi framan af hefur lítið framboð verið af viðurkenndum mælitækjum til að greina með samræmdum hætti hvernig fólki líður varðandi heilbrigði, húsnæði, hvernig tengsl fólks við aðra eru, um frístundaiðkun, hag fjölskyldunnar, áhugamál og gæði samfélagsins. Þetta eru allt þættir sem skipta miklu um það hvort samfélag telst vera bjargálna, sjálfbjarga, já, sjálfbært. Mælikvarðar sem við erum að tala hér um taka einmitt mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, um sjálfbærni. Byggt er á þremur meginþáttum sem eru hinir félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu og allnokkrum undirflokkum. Samfélög geta þannig ekki talist öflug og sjálfbær nema að allar þessar stoðir séu styrkar. Láti ein undan riðar kerfið til falls.

Þetta þekkjum við af sárri reynslu þegar rýnt er í byggða- og atvinnuþróun hér á landi undanfarna áratugi. Sjávarbyggðir urðu illa úti í kjölfar lagasetningar um stjórn fiskveiða. Þar þykjast menn hafa náð hinum efnahagslegu markmiðum, sömuleiðis hinum umhverfislegu með faglegri nýtingu í sókn fiskstofna. Þriðja mikilvæga stoðin, hin félagslega, varð hins vegar að láta undan, mestmegnis vegna þunga mammons. Afleiðingarnar voru stórfelldar; atvinna og þekking tapaðist, rótgrónar útgerðarbyggðir nánast eyddust, atvinnutæki og fasteignir urðu verðlaus. Þarna var markmiðum um sjálfbærni, (Forseti hringir.) hagsæld og lífsgæði ekki framfylgt. Látum það ekki endurtaka sig. Við snúum ekki hjólum tímans við en getum nýtt þetta sem víti til varnaðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)