150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:57]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég verð að segja að mér finnst eiginlega gargandi snilld að hafa átt umræðu hér í þingsal í tæpan klukkutíma um að hagvöxtur sé ekki upphafið og endirinn að öllu sem er mikilvægt í samfélaginu. Þetta er einn af þeim dögum sem mér þykir virkilega gaman að vera þingmaður. Mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri. Mér finnst þetta hafa verið mjög gagnleg umræða og mér finnst mikilvægt að það komi fram að eins og ég skil þetta þá skiptir það gríðarlega miklu máli við að útrýma fátækt og útrýma vesæld að við söfnum réttum gögnum. Þetta snýr að því hvernig við högum ríkisfjármálum, hvernig við úthlutum peningum. Það þarf að vera byggt á góðum gögnum. Eins og staðan er núna erum við loksins að horfast í augu við að við höfum ekki safnað þessum gögnum. Við höfum ekki verið að mæla rétta hluti. Það er dálítið ástæðan fyrir þeirri skekkju sem við sjáum í samfélaginu. Þetta snýr að því að tækla raunverulega rót vandans. Þess vegna er þetta svo magnað og þess vegna skiptir það svo miklu máli að við förum rétt að þessu og þess vegna á forsætisráðherra mikið hrós og heiður skilinn og hvatningu í að vinna þetta mál áfram og gera það vel.

Ég tek innilega undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson varðandi hin holóttu gögn, það er gríðarlega mikilvægt mál. Ég hvet ráðherra til að skoða það vel. Hanna Katrín Friðriksson talar um heim sem hafi verið „hannaður með karla sem mælistiku“. Þetta er svo sannarlega rétt og á vel við um heilbrigðiskerfið. Ég er að renna út á tíma. Það hefur mikið verið talað um það að þegar verið er að þróa lyf hafi karlmenn verið notaðir sem mælistika og þar af leiðandi hafi konur verið að bregðast mjög illa við lyfjum, og ekkert vitað hvers vegna. Svo hefur komið í ljós að þessi lyf hafa allt önnur áhrif á líkama kvenna en karla. Það hefur bara aldrei verið hugsað um þetta eða það skoðað á nokkurn hátt þannig að það skiptir gríðarlega miklu máli að við höfum þetta í huga.

Kannski spyr ég hæstv. ráðherra í lokin hvort hún sé, í ljósi þess að það er verið að taka velsæld og snúa yfir í vesæld, (Forseti hringir.) kannski opin fyrir því að við köllum þetta bara sældarhagkerfi. Mér finnst það dálítið fallegt.