150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 512/2017. Vegna þeirra orða sem hér féllu áðan, undir liðnum um fundarstjórn forseta, hlýt ég að segja að það er hreint ekki óeðlilegt að Alþingi komi að þessu máli í ljósi aðkomu Alþingis á fyrri stigum þess, m.a. til þess að heimila endurupptöku málsins, eins og ég mun koma nánar að síðar í framsögu minni. Sömuleiðis eigum við fordæmi þess að Alþingi hafi hlutast til um að greiddar yrðu bætur í sérstökum málum þannig að ég get ekki fallist á þann málflutning sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór með undir liðnum um fundarstjórn forseta. Frumvarpið sjálft, sem ég mæli fyrir, lætur lítið yfir sér og er ekki nema þrjár greinar en tekur á stóru úrlausnarefni. Það er liður í yfirbót stjórnvalda í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ríkisstjórnin hefur þegar beðið fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra sem átt hafa um sárt að binda vegna málsins afsökunar á því ranglæti sem þau hafa mátt þola.

Það frumvarp sem um ræðir lýtur fyrst og fremst að fjárhagslegum þætti málsins og að það sé tryggt að málsaðilar fái fjárhagslegar bætur þótt ljóst sé að fjármunir geti aldrei bætt það tjón sem ranglátur dómur olli hinum sýknuðu og fjölskyldum þeirra. Aðdragandinn að sýknudómi Hæstaréttar fyrir liðlega ári var langur. Einstaka sakborningar og aðstandendur þeirra háðu mikla baráttu fyrir æru sinni, bæði á vettvangi dómstóla og gagnvart almenningi. Endurupptökubeiðni var hafnað af Hæstarétti og ljóst var að dómstólaleiðin ein og sér yrði ekki til þess að mæta athugasemdum sakborninga við þá meðferð sem þeir sættu af hálfu réttarkerfisins.

Hinn 7. október 2011 skipaði Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, sérstakan starfshóp sem var falið að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmálið í heild sinni. Hann hafði þá veitt viðtöku áskorun, undirritaðri af tæplega 1.200 einstaklingum, þar sem rannsóknar og endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins var krafist. Starfshópnum, undir forystu Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, var falið að skoða sérstaklega þá þætti sem lutu að rannsókn málsins og framkvæmd hennar. Skýrsla þessa starfshóps er afar ítarleg en hópurinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu að rannsókn málsins hefði verið haldin ýmsum göllum og um of hefði verið einblínt á sekt sakborninga. Samhliða var framkvæmt ítarlegt sálfræðimat á áreiðanleika framburðar dómfelldu í málinu. Sálfræðimatið leiddi í ljós að það væri hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburðir, þar á meðal játningar, dómþola í málinu hefðu ýmist verið falskir eða óáreiðanlegir. Niðurstöður starfshópsins voru afdráttarlausar og fólu í sér ákveðinn áfellisdóm yfir réttarkerfinu.

Á þessum tíma voru tveir dómþolar úr Guðmundar- og Geirfinnsmálunum látnir og ljóst að samkvæmt þágildandi lögum gætu aðstandendur þeirra ekki sótt rétt þeirra. Alþingi steig þá inn í málið, eins og ég vísaði til áðan. Þingmenn úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lögðu fram frumvarp árið 2014, sem varð að lögum það sama ár. Þau lög veittu aðstandendum látinna dómþola í þessu máli rétt til að fara fram á endurupptöku máls. Árið 2017 féllst endurupptökunefnd á að heimila endurupptöku mála gegn fimm sakborningum, að Erlu Bolladóttur undanskilinni en hún var dæmd fyrir rangar sakargiftir. Einnig var beiðni annarra sakborninga um endurupptöku er varðaði rangar sakargiftir hafnað.

Þann 27. september á síðasta ári kvað Hæstiréttur upp sýknudóm í máli allra fimm sakborninganna. Það var sérstakt í þessu máli að bæði verjendur og ákæruvald kröfðust sýknu sakborninga í málinu. Þarna gekkst réttarkerfið því við þeim misbresti sem orðið hafði á meðferð opinbers valds áratugum fyrr.

Í kjölfarið á fundi ríkisstjórnar var rætt um þetta mál og fyrir hönd stjórnvalda bar ég fram afsökunarbeiðni til sakborninga, aðstandenda og annarra sem hafa átt um sárt binda vegna málsins. Sett var á laggirnar sáttanefnd sem fékk það hlutverk að leiða viðræður og sáttaumleitanir við þá sem sýknaðir voru og aðstandendur þeirra. Sáttanefndin fundaði með aðilum málsins, þar á meðal með aðkomu setts ríkislögmanns. Ég átti síðan fundi með þeim sem þess óskuðu á þessu tímabili, þ.e. þeim málsaðilum sem þess óskuðu. Á tímabili í vor stóðu stjórnvöld í þeirri trú að sátt við flesta aðila lægi fyrir og í undirbúningi var m.a. framlagning frumvarps á þeim grundvelli. Það gekk ekki eftir og nú hefur a.m.k. einn aðili höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og aðrir sömuleiðis boðað málaferli. Eðli máls samkvæmt telja aðrir málsaðilar ekki hag í því að semja við stjórnvöld um greiðslur þegar svo er háttað um mál og ef það er ósk málsaðila verða þau mál að hljóta framgang fyrir dómi. Eigi að síður tel ég mikilvægt að stjórnvöld og Alþingi komi sér saman um ákveðna yfirbót sem sé þá haldið utan dómstóla og er þar með utan þess lagalega orðfæris sem ræður ríkjum þegar tekist er á frammi fyrir dómara.

Með þessu frumvarpi, verði það að lögum, er ráðherra veitt heimild til að greiða hinum sýknuðu bætur og er brugðið frá þeirri venju að samkomulag um bætur verði aðeins gert með því skilyrði að það feli í sér fullnaðarbætur, þ.e. að aðilar afsali sér rétti til að fara í dómsmál. Þegar af þeirri ástæðu er rétt að Alþingi fjalli um málið og verði frumvarpið að lögum þurfa málsaðilar ekki að bíða niðurstöðu dómstóla sem getur tekið langan tíma. Enn fremur gerir frumvarpið ráð fyrir greiðslum til aðstandenda þeirra sem eru látnir á sama grundvelli og til þeirra sýknuðu sem eru á lífi. Hér eru því tekin af öll tvímæli um vilja ríkisstjórnar og Alþingis til að bæta fyrir þá ranglátu meðferð opinbers valds sem hefur verið afhjúpuð og staðfest. Mælt er fyrir um skattfrelsi bóta en jafnframt tekið fram að komi til dómsmáls dragist greiddar bætur frá mögulegri dæmdri bótafjárhæð. Verði bætur fyrir dómi lægri en bætur á grundvelli þessa frumvarps verður síðarnefnda fjárhæðin þó ekki rýrð með neinum hætti.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að horft verði til þeirra fjárhæða sem þegar voru ræddar við aðila fyrr á þessu ári, samtals um 700–800 millj. kr., og er það listað nokkuð nákvæmlega upp í greinargerðinni, bæði rökstuðningurinn fyrir því og hvernig þeim var ætlað að skiptast. Bætur skulu m.a. miðast við lengd frelsissviptingar en jafnframt er tekið fram að svigrúm þurfi að vera til staðar til að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna. Þessar upphæðir kunna síðan að taka einhverjum breytingum eftir framgangi viðræðna við aðila samhliða framlagningu þessa frumvarps á Alþingi, verði það svo samþykkt.

Herra forseti. Frumvarpið byggist á vinnu sáttanefndar síðastliðinn vetur og í greinargerð eru sett fram sterk siðferðisleg rök fyrir því að ríkið axli ábyrgð. Gerð er tillaga um að bótagreiðslur byggist ekki eingöngu á þröngri túlkun á lagareglum þótt fjárhæðir hafi að einhverju leyti tekið mið af dómafordæmum og af lengd frelsissviptingar. Sú hugsun býr að baki að ríkið eigi að bæta fyrir það tjón sem aðilar hafi orðið fyrir, það sé sanngirnis- og réttlætismál. Bótagreiðslur þurfi að eiga sér stað óháð því hver niðurstaða verði í dómsmáli.

Í greinargerð með frumvarpinu er síðan stiklað á stóru varðandi þá óforsvaranlegu meðferð sem hinir sýknuðu voru látnir sæta og tímalengd einangrunar og gæsluvarðhalds. Samkvæmt settum ríkislögmanni mun ekki koma til málflutnings og dómsuppkvaðningar í því máli sem nú hefur verið höfðað fyrr en á næsta ári. Kunnugt er að ríkið hefur farið fram á sýknu, m.a. vegna fyrningar, en samhliða boðið fram greiðslur umfram skýra lagaskyldu. Ég tel óheppilegt að málið hafi farið í þennan lagalega farveg sem virðist eðli máls samkvæmt ansi kaldranalegur fyrir þá sem horfa utan frá á málið, þó að hann kunni að teljast hefðbundinn þegar ríkið grípur til varna. Ég tel því mikilvægt að frumvarpið sem hér er lagt fram hljóti framgöngu, að stjórnvöld og Alþingi viðurkenni þar með skylduna til að bætt sé fyrir þau brot sem sakborningar máttu þola fjárhagslega.

Verði þetta frumvarp að lögum mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á málatilbúnað ríkislögmanns en ég fór yfir efnisatriði þess á fundi með honum í síðustu viku. Þar kom fram að hann myndi breyta nálgun sinni í málflutningi í ljósi þess frumvarps sem við ræðum í dag, verði það að lögum. Það er því skýrt að málflutningur mun byggjast á breytingum á málsástæðum frá því sem kom fram í greinargerð sem lögð var fram í síðasta mánuði.

Ég vil þó árétta mikilvægi þess að umræða um réttlæti í þessu máli verður ekki einskorðuð við fjárhæðir úr opinberum sjóðum. Sú spurning hlýtur að vera áleitin, þegar við ræðum mál af þessum toga, hvernig standa eigi að samfélagslegu uppgjöri þegar í ljós kemur að alvarlegur misbrestur hefur orðið við meðferð opinbers valds og slíkt uppgjör er fjölþætt. Þar koma Alþingi, dómstólar og stjórnvöld við sögu en einnig fjölmiðlar, frjáls félagasamtök og háskólasamfélagið. Uppgjör kallar á sjálfsrýni. Réttarvörslukerfið þarf að líta í eigin barm og svara því hvað hafi gerst og hvernig tryggt sé að svona hlutir gerist ekki aftur. Réttaröryggi almennings hlýtur alltaf að vera ein af grunnskyldum okkar, það á alltaf að vera í fyrirrúmi. Það er mikilvægt að þeir sem fara með opinbert vald á því sviði íhugi þetta mál allt vel og dragi af því lærdóm.

Stjórnmálin þurfa líka að líta í eigin barm enda var það ekki fyrr en árið 2011 að ráðist var í endurskoðun á þessu máli eftir áratugabaráttu margra þeirra sem í hlut áttu og að sumum þeirra gengnum. Það tók tímann sinn. Sem samfélag þurfum við að rýna inn á við og velta því upp hvernig nokkuð þessu líkt gat átt sér stað og hvernig við búum svo um hnúta að það gerist aldrei aftur. Þegar málið er skoðað er ljóst að örlög þessara einstaklinga hefðu í raun getað orðið örlög hvers og eins okkar. En það er erfitt að ætla sér að ljúka slíku uppgjöri á einu bretti. Það þarf að takast á við nýjar hliðar málsins eftir því sem framvindan skýrist. Leiðarljósið í allri slíkri vinnu hlýtur að vera heiðarleiki, sanngirni, auðmýkt og virðing við einstaklinga sem hafa orðið illa úti, en jafnframt að draga af mistökum fortíðar lærdóma fyrir framtíðina og kannski er það allra mikilvægasta að tryggja að mistökin séu ekki endurtekin og að yfirbótin standi þannig undir nafni til framtíðar.

Herra forseti. Þetta frumvarp, verði það að lögum, er áfangi á langri vegferð. Það er von mín að Alþingi veiti þessu máli brautargengi. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi frumvarpið til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.