150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg fullyrt að það verður örugglega mjög langt þangað til við finnum sambærilegt mál í sjálfu sér en ekki mjög langt þar til við finnum út að menn hafi verið sviptir frelsi með óréttmætum hætti og að einhver sem hefur verið sakfelldur áður verði sýknaður. Það verður örugglega ekki langt í það. Ég velti þessu upp af því að þetta er sérstakt mál. Hér er verið að tala um bætur sem eru langt umfram allt sem þekkist í íslenskri réttarsögu, meira að segja hvað varðar fólk sem er með 100% miskabætur og 100% varanlega örorku. Við erum komin margfalt yfir það. Hér er því verið að fara mjög sérstaka leið, að taka raunverulega þetta mál líka út úr dómstólum, eins og gert hefur verið með allt þetta mál frá 2011. Ég er bara ekki þar, hæstv. forsætisráðherra, og ég hef verulegar áhyggjur af þessari þróun og því fordæmi sem þetta gæti gefið seinna.