150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég skildi ræðu hv. þingmanns rétt þá er hann með vangaveltur um það hvort þeir lögreglumenn og dómarar sem komu að málinu á sínum tíma þurfi ekki að bera ábyrgð á þessum mistökum sínum. Er það rétt skilið? Þannig skildi ég ræðuna.

Ég vara við öllu slíku vegna þess að þó að stjórnmálamenn og stjórnvöld ákveði núna að það sem var gert fyrir 45 árum séu mistök er ekki þar með sagt að það séu mistök. Við getum ekki ákveðið núna að þetta hafi verið mistök og illa hafi verið farið með vald. Ef einhverjir geta gert það þá eru það dómstólar. Ég vara við því að við förum slíka leið og því vara ég við þingsályktunartillögu sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hefur lagt fram og er til meðferðar hér á þinginu.

Ég vil líka mótmæla því hér að umræddir menn hafi brotið af sér við rannsókn málsins, sýnt óheiðarleika eða gert eitthvað óeðlilegt í þessu máli á sínum tíma, hvort sem það eru lögreglumenn eða dómarar. Ég mun aldrei vega að mönnum með þeim hætti, hvorki hér í sal né annars staðar. Það þýðir ekkert fyrir stjórnmálamenn eða núverandi stjórnvöld að fara að ákveða að þessir menn hafi brotið af sér. Það er ekkert sem bendir til þess.