150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og greinargerðin með því ágætlega samin, en hún varpar samt engu ljósi á það af hverju við eigum að fjalla um þetta mál hér. Ég skil ekki, og það hafa margir sagt það fyrr í dag, af hverju komið er með málið hingað og ég er engu nær eftir ræðu forsætisráðherra áðan því að þetta er mál sem hefði átt að klára áður en það hefði komið inn í þingið.

Málið sjálft, Guðmundar- og Geirfinnsmálið, er náttúrlega allt miklu meira en harmsaga, það er ekki nógu sterkt orð. Það er hægt að tala um að það verði að ákveðinni harmsögu bara þegar það kemur hingað til þingsins, þegar það er dregið inn í pólitíkina. Það er það sem forsætisráðherra er að gera, hún er að draga pólitíkina aftur inn málið. Og bara á þessum skamma tíma sem við erum búin að vera hér þurfa þeir sem hafa verið sýknaðir eftir sjálfstæða ákvörðun sjálfstæðs dómstóls, Hæstaréttar, að hlusta á það aftur og aftur að menn séu kannski ekki sammála niðurstöðu Hæstaréttar. Það er verið að ýfa upp sár. Það er verið að rífa plásturinn af og strá salti í sárin. Það er það sem ég óttaðist þegar ég sagði strax í upphafi: Af hverju er verið að koma með málið hingað inn? Af hverju í ósköpunum? Forsætisráðherra gerði svo vel þegar Hæstiréttur felldi sinn dóm og sýknaði aðila málsins, því að strax daginn eftir var afsökunarbeiðni komin. Ég var mjög stolt af forsætisráðherra eins og ég er reyndar oft. En síðan er framhaldið í höndum ríkisstjórnar allt miklu meira en klaufalegt. Það er eins og það verði mistök á mistök ofan. Ég ætla ekki að segja sinnuleysi, alls ekki af því að ég veit að forsætisráðherra vill gera vel í þessu, en stundum verða fólki á mistök.

Ég vil kannski frekar ræða forsætisráðuneytið með alla sérfræðingana sem þar eru, af hverju menn höfðu ekki betur auga með nákvæmlega þessu máli. Það er svo sérstakt. Vonandi þurfum við aldrei að upplifa svona mál aftur. Það hefur farið einstaka leið í gegnum dómskerfið allt frá upphafi. Ég er lögfræðimenntuð, hef þó ekki hlotið viðlíka reynslu og ýmsir sem hafa talað hér, sem ég er reyndar ekki sammála í öllu, og ég las þennan dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu gaumgæfilega á sínum tíma og hef fylgst ágætlega með því. Ég veit hver er einlæg afstaða forsætisráðherra og alla vega hluta þingmanna stjórnarflokkanna, ekki þó allra, það hefur komið í ljós, og skil því ekki af hverju menn fylgdust ekki betur með því hvernig greinargerð ríkislögmanns myndi líta út. Menn skýla sér á bak við það að venjulega sé það ekki gert. Ég er bara ósammála því að það sé ekki gert og veit fordæmi þess að ráðherrar í ríkisstjórn hafi velt fyrir sér aðferðafræði í dómsmálum af því að ríkislögmaður er ekkert annað en lögmaður ríkisins, eins og lögmaður úti í bæ sem er lögmaður fyrir málsaðila.

Ég hefði haldið að skilaboðin væru einfaldlega: Við skulum viðurkenna skilyrðislaust, algjörlega skilyrðislaust, skaðabótaábyrgð ríkisins. Menn eru búnir að biðjast afsökunar og gerðu það með reisn, það var mikilvæg afsökunarbeiðni, en hefðu líka átt að segja að greinargerðin sem var skrifuð yrði dregin til baka og viðurkenna skilyrðislausa skaðabótaábyrgð. Ef menn koma sér ekki saman um bætur þá hef ég sagt að það sé dómstólanna að ákveða þær. Mér finnst við að hluta til vera að færa hlutverk dómsvaldsins inn í þingið. Því hvað gerist hér? Það eru engar fjárhæðir nefndar, sem betur fer. Ég ætla rétt að vona að ekki sé ætlunin að við förum á einhvern uppboðsmarkað með fjárhæðir hér, skárra væri nú, en hvað gerist þegar búið er að samþykkja málið? Það er ekkert sem segir að málið klárist með samþykkt frumvarpsins, ekkert. Það sýnir hversu vanreifað málið er þegar spurt var fyrr í dag: Hvaðan á fjármagnið að koma? Er það á fjáraukalögum? Þá er svarið, eftir því sem ég best tók eftir, að það hefði ekki komið skýrt svar frá fjármálaráðuneytinu um það hvort fjármagnið kæmi í gegnum fjárauka eða varasjóð. Það sýnir náttúrlega að ekki er búið að hugsa þetta mál til enda.

Ég skil vel að þetta er snúið. Ég skil að þetta er snúið mál fyrir forsætisráðherra því að það er einstakt. Ég vona að enginn annar forsætisráðherra þurfi að standa frammi fyrir því erfiða viðfangsefni að reyna að leysa slíkt mál. Það hefði kannski verið ráð, sem er ekki lenska hjá þessari ríkisstjórn, að tala einfaldlega við alla flokka og spyrja: Hvað eigum við að gera til að koma í veg fyrir að við setjum málið inn á hið pólitíska svið? Greina frá því að ríkisstjórnin ætli að draga til baka greinargerðina og segja: Við ætlum að viðurkenna skilyrðislausa skaðabótaábyrgð ríkisins og búast má við háum bótafjárhæðum, þannig að þið vitið af því.

Vel að merkja, ég hef sagt það að ríkisvaldinu á að svíða undan svona málsmeðferð af því að þetta á að vera fordæmalaust. Ég vil fagna því sérstaklega að mér finnst forsætisráðherra tala skýrt í þeim efnum að svona megi aldrei koma fyrir aftur, aldrei. Þess vegna þarf ríkið að átta sig á því að til að svona komi ekki fyrir aftur þarf grundvallarreglan, um að allir séu saklausir þar til sekt er sönnuð, að vera ótvíræð, hún þarf að gilda og allt kerfið verður að styðja það. Það er ekki einhverjum einum um að kenna, þetta var pólitíkin á sínum tíma. Ef það er eitthvert mál sem við hefðum átt að vita að ekki ætti að draga aftur inn í þingsal þá er það þetta mál. Við hefðum ekki átt að gera það heldur klára það á forsendum ákvörðunar framkvæmdarvaldsins svo að málið fari síðan fyrir dómstóla varðandi bótafjárhæðir. Við byggðum upp þannig kerfi að allir þessir mósaíksteinar sem eiga að vera hluti af því réttaröryggi sem við byggjum upp fyrir þegnana og fólkið í landinu molnuðu niður, hver á fætur öðrum, að mínu mati. Þegar upp var staðið var 40 ára ógæfa fólks, einstaklinga, fjölskyldna, undir og það má ekki gerast aftur að ríkisvaldið, kerfið, bregðist fólki. Það má heldur ekki vera þannig að múgæsing verði til þess að ríkið fari af stað með rannsóknir, að múgæsing verði til þess að mál verði tekin upp.

Þess vegna segi ég: Ég ætla ekki að setjast í dómarasæti en ríkið verður skilyrðislaust að borga fyrir þennan óskapnað þannig að allir í þeirri keðju, réttaröryggiskeðju, sem koma að því að byggja hana upp, þar með talið pólitíkin, viti að þeir skuli ekki fara inn á það svið sem tilheyrir ákæruvaldinu, ákæruvaldi sem á að fara eftir grundvallarreglum réttarríkisins. Þess vegna finnst mér að borga eigi háar fjárhæðir og ég treysti dómstólunum til að ákveða það, enda ákveðin dómafordæmi fyrir því hverjar þær ættu að vera.

Ég velti því enn fyrir mér af hverju forsætisráðherra bað ríkislögmann ekki einfaldlega um að draga greinargerðina til baka og sagði: Nei, þetta er ekki málatilbúnaður okkar. Við erum ekki sammála því að fara þá leið sem var ákveðin af því ágæta embætti. Ég vil ekki draga inn persónu ríkislögmanns heldur voru skilaboðin einfaldlega ekki skýr. Það er svo vont að sjá það í þessu máli, eins og ég segi, að ríkisstjórnin og ráðuneytið hafi ekki haft betur auga með því í staðinn fyrir að reyna að klára þetta sem fyrst, nýta síðan tímann í annað, eins og að koma með fyrirbyggjandi aðgerðir. Hvað getum gert til þess að svona nokkuð gerist ekki aftur? Getum við t.d. hlustað á það sem sagt var í grein frá einum af afkomendum Tryggva Rúnars Leifssonar þar sem m.a. er lagt til að samþykktur verði táknrænn dagur fyrir réttarkerfi sem brást? Að ríkisstjórnin kæmi með upplegg um það hvað hún legði til svo að slíkt gerist aldrei aftur? Í staðinn er farinn þessi leiðangur með frumvarp sem að mínu mati skilar engu fyrir málið sem slíkt, tryggir ekki réttindi málsaðila, þolenda málsins, heldur þurfa þeir miklu fremur að upplifa það að einhverjir efist um allan tímann og alla málsmeðferðina og telji að málsaðilar hafi á sínum tíma einfaldlega verið sekir, eins og ég skildi þetta áðan hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni. Ég hef kannski misskilið hann.

Mín skilaboð eru einfaldlega þau að mér finnst þetta frumvarp sorglegt, það er að einhverju leyti pólitísk leiktjöld, þó að ég viti að það sé góður og sterkur hugur hjá forsætisráðherra til að gera vel í þessu máli. Ég held einfaldlega að þetta skref hafi verið mistök og það er allt í lagi að viðurkenna það. Þetta mál má ekki verða til þess að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar. Þetta mál á að verða okkur lexía til að breyta rétt, bregðast rétt við og hluti af því er ekki að draga pólitíkina inn í málið aftur. Það má alls ekki gerast. Það þarf því engum að koma á óvart að ég er frekar ósátt við þessa leið.

Mig langar aðeins að hnykkja á því að ýjað hefur verið að því að í þessu máli hafi verið pólitík frá því að endurupptakan var ákveðin, breytingin á lögum árið 1999, og alla tíð síðan hafi pólitík verið sett inn í málið. Ég er ekki sammála því. Það er Hæstiréttur sem dæmir sýknu, kveður upp sýknudóm á grundvelli eigin mats og það mat var ekki endilega byggt á breytingum á lögum um meðferð opinberra mála heldur leiddu ný gögn miklu frekar til þess, sem höfðu slíka grundvallarþýðingu að Hæstiréttur ákvað að sýkna síðasta haust. Það má alveg gagnrýna, eins og hefur komið fram, hvort hægt hefði verið að gera þetta á annan hátt, en Hæstiréttur er búinn að setja fram sinn dóm og við verðum einfaldlega að virða það og meta málið út frá því. Þess vegna voru fyrstu skref forsætisráðherra rétt, skynsamleg og falleg og mikilvæg upp á framvinduna.

Ég held að nú sé skynsamlegast að við förum okkur að engu óðslega í þessu máli. Ég á eftir að gera upp við sjálfa mig hvort málið eigi að fara til allsherjar- og menntamálanefndar eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég held að enn væri mesti bragurinn á því að ríkisvaldið myndi kalla til baka þá greinargerð sem liggur fyrir, viðurkenna skilyrðislaust skaðabótaábyrgðina og segja: Getum við komist að samkomulagi um það, fyrst aðilar koma sér ekki saman um bótafjárhæðir, að við förum með þann hluta málsins fyrir dómstóla og það verði klárað á þeim vettvangi sem sú ákvörðun heyrir til? Það á ekki heima hér á þingi að við förum að ræða um það hversu háar (Forseti hringir.) bótafjárhæðir eigi að vera, hversu erfitt þetta mál allt saman er. Það er þegar byrjað, það sem við áttum að hafa vit til að forðast.