150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[20:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Sú spurning sem hefur hvað mest verið uppi í kvöld er: Af hverju er þetta mál komið til kasta þingsins? Ég get verið síðasta ræðumanni, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, sammála um margt, en þegar Hæstiréttur felldi sinn dóm og ég færði fram afsökunarbeiðni fyrir hönd stjórnvalda á þeim tíma ákvað ég að skipa sáttanefnd. Mér fannst ekki koma til greina af hálfu stjórnvalda á þeim tíma að segja: Og svo geta aðilar leitað réttar síns fyrir dómstólum. Mér fannst eðlilegt að við færum í það mál að reyna að ná samkomulagi um einhvers konar sanngjarnar bætur og aðra ófjárhagslega þætti sem við höfum ekki rætt hér, enda tengjast þeir ekki þessu máli beint. Samt mun þurfa að ráðast í þá.

Sáttanefndin komst að þeirri niðurstöðu að áhöld væru um að aðstandendur fyrrum sakborninga ættu sama rétt og fyrrum sakborningar sem enn væru á lífi af því að þeir ættu ekki rétt til sjálfstæðs miska. Settur ríkislögmaður treysti sér ekki til að bjóða aðstandendum fyrrum sakborninga bætur á sama grundvelli og þeim fyrrum sakborningum sem enn eru á lífi. Á þeirri ráðgjöf byggi ég það að leggja hér fram frumvarp. Það var alltaf hluti af hugmyndum sáttanefndar að frumvarp þyrfti að koma til til að tryggja þennan jafnræðisgrundvöll. Ég heyri að margir löglærðir hv. þingmenn efast um þetta og ég vænti þess að þeir muni þá hafa tækifæri til að ræða við alla þá lögfræðinga sem við höfum leitað til. Um þetta eru a.m.k. áhöld, það er ekki ein lína í þessu máli frekar en svo mörgum öðrum innan lögfræðinnar. Ég taldi það ákveðið sanngirnis- og réttlætismál að aðstandendur fyrrum sakborninga ættu sama rétt og þeir fyrrum sakborningar sem eru enn á lífi. Á því byggist þetta og um það er fjallað í greinargerð þar sem farið er síðan yfir aðrar málsástæður sem voru hafðar til hliðsjónar á þeim grundvelli sem sáttanefndin vann með, fyrst og fremst miðað við fjölda daga en líka einstaklingsbundnar aðstæður. Þar með er ekki sagt að einhver ein rétt lína sé í þessu máli. Það er ástæðan fyrir því að þetta frumvarp kemur hingað inn.

Ég hef ekki nokkurn áhuga á því að fara með málið í flokkspólitískar skotgrafir. Það er það síðasta sem ég myndi vilja, en mér finnst mikilvægt að stjórnvöld geti staðfest vilja sinn til að sýna yfirbót, viðurkenna það ranglæti sem Hæstiréttur staðfesti á sínu sviði með dómi sínum frá því í fyrra og að stjórnvöld hefðu skýra heimild til að bjóða þessum fimm aðilum, sem eru misjafnlega settir, bætur sem samt væru á þessum jafnræðisgrundvelli. Mér fannst það mikilvægt og ég féllst á þann rökstuðning sáttanefndar sem talaði í því samhengi um að þó að ekki væru allir fyrrum sakborningar á lífi ættu aðstandendur hinna samt siðferðislegt tilkall í þessu máli. Það er ekki endilega samkvæmt hefðbundnum hugmyndum lögfræðinnar, en þetta er rökstuðningur sem ég féllst á og mér fannst mikilvægt að þessi heimild kæmi hér til.

Ég fellst því ekki á að þetta frumvarp sé sýndarmennska, þó að það orð hafi kannski verið túlkað með ýmsum hætti í ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Þetta er ekki sýndarmennska, þetta er skýr vilji sem byggir á ráðgjöf, skýr vilji til þess að þeir fimm aðilar njóti sambærilegrar stöðu gagnvart ríkinu. En þetta er auðvitað líka, verði frumvarpið samþykkt, skýr vilji Alþingis til að segja: Við teljum rétt að stjórnvöld bæti þetta ranglæti. Við útilokum ekki að fólk geti áfram leitað réttar síns fyrir dómstólum. Við tökum þann rétt ekki af fólki og það er mjög sérstakt. Vel kann að vera að það verði gagnrýnt líka í meðförum þessa máls því að það er ekki hið kórrétta lögfræðilega ferli sem yfirleitt er notað. Mér fannst mikilvægt að stjórnvöld hefðu þarna tækifæri til að reyna að ljúka því að greiða bætur sem væru sambærilegar með þessum hætti, en svo getum við deilt um það hvað eru háar bætur og hvað eru lágar bætur. Ég ætlast ekki til þess að Alþingi taki afstöðu til þess í þessu frumvarpi. Það þætti mér ekki viturlegt. Hins vegar fannst mér rétt að greina frá því í greinargerð, bara svo að allar upplýsingar lægju á borðum fyrir þingmenn, hvar þessar fjárhæðir hefðu staðið á sínum tíma þegar sáttanefnd og settur ríkislögmaður skildu við málið.

Þetta er sannarlega flókið mál. Ég hafði þá trú, og þess vegna er frumvarpið svo sem ekki ný hugmynd fyrir mér af því að þetta var hluti af hugmyndum sáttanefndar, að með þessu gæti Alþingi og stjórnvöld sýnt sinn fyllilega skýra vilja. Ég vissi um leið að ekki væri ólíklegt að þessi mál myndu halda áfram fyrir dómstólum en þá lægi líka fyllilega fyrir hver vilji Alþingis væri hvað varðar bótaskyldu, þó að ríkið hafi að sjálfsögðu rétt á því að grípa til varna gegn þeim umframkröfum sem þá myndu myndast úr opinberum sjóðum.

Það er augljóst í ljósi þess sem hér er rætt um greinargerð ríkislögmanns að þetta frumvarp, verði það að lögum, hefur eðlilega veruleg áhrif á þann málatilbúnað því að þar með eru tekin af öll tvímæli um bótaskyldu ríkisins í málinu. Ég er síðasta manneskjan til að óska þess að þetta mál fari í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir. Mér þykir leitt ef fólk telur að það sé ætlan mín með framlagningu frumvarpsins. Hér er ég að hlíta mjög skýrum ráðum þeirra sem fóru með umboð ríkisins í því verkefni að reyna að ná samkomulagi við alla aðila og fylgja þeirri heildarsýn að þeir fimm aðilar sem hér er um að ræða njóti jafnræðis. Þess vegna er þetta frumvarp komið hingað inn. Hér er ekki verið að biðja hv. þingmenn um að taka þátt í efnislegri umræðu um inntak máls eða fara í einhver yfirboð á fjárhæðum. Það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi og mér þykir leitt ef hv. þingmenn gera mér það upp hér.