150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga til ársins 2033. Ég held að það hafi verið löngu tímabært að marka til lengri tíma stefnu í málefnum sveitarfélaga og ég verð að segja að í öllum megindráttum get ég tekið undir allt sem þarna stendur. Þó er eitt atriði sem situr í mér og ég get ekki stutt. Ég hef sagt það áður að það er enginn hagfræðingur — og af því að ég lít á félaga minn hv. þm. Willum Þór Þórsson: enginn viðskiptafræðingur — eða fjármálaverkfræðingur þess umkominn að kveða upp úr um hver sé hagkvæmasta stærð sveitarfélaga, hagkvæmasti fjöldi íbúa, hvaða fjöldi tryggi í raun að íbúar í sveitarfélagi fái þá þjónustu sem þeir eiga kröfu til og gera kröfu um. Það er enginn þessa umkominn. Það er alveg ljóst að það hefur orðið alveg gríðarleg hagræðing á undanförnum áratugum hjá sveitarfélögunum og mætti ríkisvaldið í rauninni kannski taka sér sveitarfélögin að einhverju leyti til fyrirmyndar í þeim efnum þar sem þeim hefur verið fækkað frá árinu 1990 úr 204 í 72 núna og líklegast eru fram undan frekari sameiningar.

Allt er þetta ágætt. En það koma alltaf reglulega fram hugmyndir um frekari fækkun og þessi þingsályktunartillaga sem hér er er auðvitað að hluta til bundin við það að ná fram frekari fækkun sveitarfélaga til að fjölga íbúum. Það má nefna að Samtök atvinnulífsins gáfu út ágæta skýrslu árið 2016 þar sem lögð var til miklu umfangsmeiri sameining sveitarfélaga en hér er hugsanlega verið að ræða um eða stefnt að. Í júlí 2017 var birt skýrsla verkefnisstjórnar á vegum ráðherra sveitarstjórnarmála um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga og núna á þessu ári, í apríl sl., ef ég fer rétt með, kom út grænbók á vegum ráðuneytisins. Allt eru þetta ágætisinnlegg í mikilvægt málefni. Rauði þráðurinn í röksemdunum fyrir fækkun sveitarfélaga til að gera þau fjölmennari er hjá öllum þessum aðilum hagkvæmni stærðarinnar. Það er sem sagt vænt hagkvæmni og von um lægri stjórnsýslukostnað á hvern íbúa. Ég held hins vegar að það sé ekki sá leiðarvísir sem við getum stuðst við þegar við veltum fyrir okkur hvaða íbúafjöldi er hentugastur í hverju sveitarfélagi. Ég vil fá að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps sem er fámennt sveitarfélag en fullburðugt sveitarfélag með slökkvilið, skóla, heilsugæslu, hjúkrunarheimili o.s.frv. og veitir, að því er ég best veit og þekki aðeins þar til, m.a. á Grenivík, íbúum góða þjónustu en myndi ekki uppfylla þau lágmarksskilyrði sem að er stefnt með lögþvinguðum hætti. Í umsögn um grænbókina segir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameining og/eða samstarf sveitarfélaga verður að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum en ekki bara á höfðatölu. Fyrst og síðast á þó vilji íbúa að ráða ferð svo sem verið hefur. Engin „rétt“ tala er til fyrir lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi.“

Ég tek undir með sveitarstjórn Grýtubakkahrepps. Ég hef í rauninni haldið því fram að eftir því sem fjarlægðin er meiri á milli íbúa og stjórnsýslunnar séu meiri líkur á því að sameiginlegir fjármunir sveitarfélagsins finni sér annan farveg en vilji íbúanna stendur til. Það eru engin hverfisráð eða rafrænar kosningar sem koma í stað þess aga sem fólgin er í nálægð íbúanna við kjörna fulltrúa og stjórnsýsluna. Ég nefni bara sem dæmi reynslu Grafarvogsbúa af samskiptum við yfirvöld í Reykjavík. Það er engin furða þó að maður heyri stundum hugmyndir í Grafarvogi um að hagsmunum Grafarvogsbúa væri best borgið með að segja skilið við Reykjavík þar sem hagsmunum þeirra sé ekki sinnt með hætti sem þeir gera kröfu um.

Nú er það svo að það skiptir okkur öll máli hvernig til tekst við rekstur þess sveitarfélags sem við höfum valið að búa í. Það eru mörg sveitarfélög á Íslandi sem eru til mikillar fyrirmyndar og hafa náð að samþætta öfluga þjónustu og það sem ég hef kallað hófsemd í álögum á einstaklinga og fyrirtæki. Málið er að þegar farið er yfir þá þætti er ekki samhengi á milli stærðar sveitarfélagsins og þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir og ánægju íbúa með þá þjónustu og hófsemdar sem gætt er í álögum á íbúa og fyrirtæki. Það er ekki samhengi þar á milli og við erum hér stödd í stærsta sveitarfélaginu sem er merki um það.

Það er sem sagt alveg ljóst í mínum huga að stærðin, fjölmenni í sveitarfélagi, segir ekki allt um hvernig til tekst við rekstur eða skipulag eða þjónustu og segir ekkert til um það hvernig fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er. Og eins og ég sagði áðan er stærð sveitarfélagsins því miður ekki ávísun á betri þjónustu við íbúana. Það kom ágætlega í ljós í þjónustukönnun sem einu sinni var árleg hjá stærstu sveitarfélögum landsins sem Gallup gerði, en Reykjavíkurborg dró sig út úr þeirri könnun. Síðasta könnun sem ég er með er frá febrúar 2015. Hvergi voru íbúar eins óánægðir með þjónustu leikskóla, grunnskóla og þjónustu við fatlaða, eldri borgara og barnafjölskyldur og í Reykjavík, stærsta sveitarfélaginu. Í skýrslu starfshóps um þjónustu Reykjavíkurborgar sem kynnt var í ágúst 2015 er myndin sem dregin er upp ekkert sérlega fallegt. Breytingar á þjónustu borgarinnar undanfarin ár hafa verið gerðar að óathuguðu máli og án þess að þörf væri á þeim. Starfshópurinn sem skipaður var einstaklingum úr stjórnkerfi borgaranna komst að því að ákveðin upplausn væri á þjónustu við borgarana og það hefði bitnað á gæðum hennar. Orðrétt segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjónusta borgarinnar er nú skipulögð þannig að íbúar þurfa að hafa innsýn í skipulag Reykjavíkurborgar til að vita hvert þeir eiga að leita eftir þjónustu.“

Þetta er niðurstaða starfshóps um hagkvæmni rekstrar í stærsta sveitarfélaginu. Mér sýnist að við ættum a.m.k. að staldra við og hugleiða: Getur verið að við eigum bara að leyfa sveitarfélögunum sjálfum að vinna að því að sameinast (Forseti hringir.) og finna út hver sé hagkvæmasta stærðin og hvernig þau geti staðið að því að veita góða þjónustu við sína íbúa á sínum forsendum?